Drakonítar 7-8 október

  Nú eru loftsteinadrífan Drakonítar að nálgast hámark.  Hámarkið er að kvöldi mánudags 8. október og ef veður er gott munu félagar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja hittast strax og dimmir.  Reyndar mun á mánudagskvöldið bjart tungl trufla nokkuð útsýni á himni.

  Þessir loftsteinar sýnast koma með stefnu úr stjörnumerkinu Drekanum sem er auðvelt að finna með því að notast við myndina hér að neðan.


Stjörnuhröp í haust.

  Nú fer starf Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja af stað eftir einmuna gott sumar, enda farið að dimma á kvöldin og vel hefur sést til stjarna að undanförnu.

  Eitt af því sem við í félaginu munum dunda okkur við í vetur er að fylgjast með stjörnuhröpum, þegar þau verða í hámarki, svokölluðum Meteor Shower á ensku (hér vantar íslenskt orð).  Þessar stjörnuhrapsdrífur orsakast af því að jörðin gengur á hverju ári á ákveðnum tímum inn í leifar af ryki sem halastjörnur hafa skilið eftir sig.  Þetta er spennandi þar sem stundum eru menn heppnir og fá óvænt að sjá tugi eða fleiri stjörnuhröp á tiltölulega skömmum tíma.  Rúsínan í pylsuendanum eru svo stærri steinar sem geta komið inn í gufuhvolf jarðar og sjást afar sjaldan en eru mikið sjónarspil á himni, svokallaðir eldhnettir (e. fireball) eða vígahnettir.

  Í október eru Óríonítar og Dragonítar efstir á blaði, síðan eru það Leonítar í nóvember og Geminítar í desember.  Nöfn á þessum drífum eru kenndir við það stjörnumerki sem þeir sjást stefna úr frá jörðu séð, þannig eru Óríonidar kenndir við stjörnumerkið Óríon (Veiðimanninn) sem sést vel frá Íslandi, sérstaklega seinnipart vetrar.  Dragonítar sjást á tímabilinu 6. - 10. október og hafa hámark þann 8. október, þeir hafa stefnu úr stjörnumerkinu Drekanum, sem ávallt sést frá Íslandi.  Óríonítar eru í hámarki 21. október og hafa stefnu rétt ofan við Óríon.  Leonitar hafa hámark 17 nóvember og koma úr Ljónsmerkinu. Tauridar hafa hámark 12 nóvember og koma af svæði nálægt Nautinu.  Geminitar koma með stefnu úr Tvíburamerkinu rétt við stjörnuna Kastor og ná hámarki 13 desember, en þessi loftsteinadrífa er oft mjög kröftug og sjást stundum mikið af stjörnuhröpum á þessum tíma í grennd við Tvíburamerkið.

  Loks vil ég hvetja áhugasama um að taka þátt í starfi félagsins og mæta á auglýsta fyrirlestra og skoðunarkvöld í vetur - það kemur á óvart hversu margt er að sjá ef litið er upp úr hinum daglega sjóndeildarhring.

 Stefna stjörnuhrapa úr Tvíburamerkinu í desember.


Flestir vildu rífa húsið !

  Það voru flestir á því eftir hrun að húsið yrði rifið.  Könnunin hér til vinstri sýnir að einungis rúmlega fjórðungur vildi láta klára húsið.  En við bara borgum þetta með sköttunum okkar næstu áratugina.
mbl.is Kom til tals að rífa húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf í 22 ljósára fjarlægð ?

  Í sólkerfinu Gliese 667 hefur fundist reikistjarna sem er í svo hæfilegri fjarlægð frá sólu sinni að þar geti þróast líf.  Sólkerfi þetta er afar stutt frá okkur eða í 22 ljósára fjarlægð, sem er þó langt utan við það sem unnt er að ferðast til með þeirri tækni sem við þekkjum í dag.  Ferðalag að Gliese 667 með nútíma tækni tæki okkur í kringum hálfa milljón ára.

  Sólkerfi þetta er í raun þrístirni, það er í því eru þrjár sólir sem eru þó allar minni en okkar sól.  þessar sólir eru af gerðinni K3V, K5V og M1, sem þýðir að yfirborðshiti þeirra er töluvert minni en á okkar sól sem er að gerð G2V.  Þessar K sólir eru með yfirborðshita sem liggur rétt undir 5000°C en hvorug þó undir 4000°C.  M sólin er rauður dvergur með þvermál 590.000 km og aðeins 37% af massa sólarinnar og með rétt undir 3500°C yfirborðshita og því talsvert kaldari en sólin okkar.  Það hagstæða við þessar sólir er þó að þær verða miklu eldri fyrir vikið og á þar við lögmálið um að lengi lifir í gömlum glæðum, því sólir sem eru mjög heitar brenna hraðar.

  Sólkerfi þetta virkar þannig að K sólirnar (G 667A og G 667B) snúast hver um aðra í 5-13 stjarneininga (SE) fjarlægð á 42 árum, en M sólin (G 667C) snýst um hinar tvær í 56 til 215 SE fjarlægð.  Reikistjarnan sem við erum að líta til er á sporbaug um M stjörnuna (þá köldustu).  Fjarlægð M stjörnunnar frá hinum er svo mikil að hitageislun frá þeim hefur líkast til lítil áhrif á reikistjörnuna sem hefur hlotið merkinguna Gliese 667 Cc þar sem hún gengur um M sólina.

Útsýni á þessari fjarlægu jörð.
  Reikistjarnan er meira en 4 sinnum þyngri en jörðin og er bergreikistjarna.  Hún er því nógu þung til að halda gufuhvolfi og ekki of þung til að hafa of mikið af léttu frumefnunum.  Ef líf er á þessari reikistjörnu hafa íbúarnir útsýni til þriggja sóla, en K sólirnar líta þá út sem stórar gulrauðar stjörnur á himni, en móðursólin er rauð, nálæg og er meira en tvisvar sinnum stærri á himni en okkar sól og baðar jörð sína heitum geislum sínum, en ljósið sem reikistjarnan nýtur frá henni er ekki nema 10% minna en ljósið sem við fáum frá okkar sólu, en orkan er svipuð svo aðstæður geta verið hagstæðar til að vatn sé þar í fljótandi formi og hitastig svipað og hér á jörðu.

  Þetta sólkerfi, sem er staðsett í Sporðdrekanum, hefur eiginhreyfingu 1 pcsek. á ári, sem er fremur mikið miðað við margar af nálægustu stjörnum við okkur.  Hingað til hafa alls fjórar reikistjörnur fundist á lífsvæði sóla sinna og þetta er sú áhugaverðasta hingað til og sú sem er næst okkur.


Hlaupársdagur.

  Um hlaupár segir í Rímfræði Þorsteins Sæmundssonar : Hlaupár er almanaksár sem er degi lengra en venjulegt almanaksár, þ.e. 366 dagar í stað 365. Í nýja stíl er hlaupár alltaf þegartalan 4 gengur upp í ártalinu, nema ef um aldamótaár er að ræða. Þá er hlaupár aðeins ef talan 400 gengur upp í ártalinu. Aukadeginum, sem nefndur er hlaupársdagur er aukið við febrúarmánuð. Nafnið hlaupár mun dregið af því að merkisdagar eftir hlaupársdag „hlaupa yfir“ þann vikudag sem þeir annars myndu falla á. Reglur um hlaupár eru nauðsynlegar til að fella almanaksárið varanlega að árstíðaárinu, sem ekki telur heila tölu daga. Meðallengd árstíðaársins (tíminn milli sólhvarfa) er 365 dagar 5 stundir 49 mínútur og 46 sekúntur, en með ofangreindri hlaupársreglu verður meðallengd almanaksársins 365 dagar 5 klukkustundir 49 mínútur og 12 sekúntur.  Munurinn er aðeins 26 sekúntur á ári svo að 3 þúsund ár mega líða áður en skekkjan nemur einum degi.

Tunglið og Júpiter

  Það hefur viðrað vel til stjörnuskoðunar af og til að undanförnu.  Í gær sást tunglið vel og nálægt tunglinu var skær stjarna, Júpiter, sem er stærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar.  Ef stjörnusjónauka væri beint að Júpiter væri unnt að sjá Galileo tunglin fjögur sem snúast um hann og það er hreint stórkostlegt að sjá þau í fyrsta skipti.

  Rétt eftir sólsetur má sjá Venus fylgja í humáttina á eftir sólu niður sjóndeildarhringinn, en Venus er oft bjartasta stjarna á himinhvolfinu á eftir sól og tungli.  Miðja vegu milli Júpiters og Venusar má sjá Úranus í sjónauka, en hann sést ekki með berum augum.  Nú í næstu viku hefst svo byrjendanámskeið í stjörnufræðinni hjá Visku og þá geta áhugasamir kynnst þessum undrum öllum betur.


Jóla - Sólsleikja.

  Orðið Sólsleikja er nafn úr stjörnufræðinni, sem hefur verið haft yfir halastjörnur sem fara mjög nálægt sólunni á ílangri braut sinni langt utan úr sólkerfinu framhjá sólunni.  Þessar halastjörnur fara svo nálægt sólu að ótrúlegt er að þær skuli yfirleitt lifa af heimsóknina, því þið getið rétt ímyndað ykkur hitann sem þær lenda í.

  Hinn 2. desember s.l. fann stjörnuáhugamaðurinn og ástralinn Terry Lovejoy halastjörnu sem reyndist vera af þessari tegund og var hún auðvitað skírð eftir honum.  Þessi halastjarna fer um sólu á 314 árum og heimsækir því sólina aftur árið 2325 eftir óralangt ferðalag sitt alla leið úr Oortskýinu sem er langt utan við braut Plútó.

  Fyrirfram bentu útreikningar stjörnufræðinga til þess að allt eins væri líklegt að Lovejoy myndi enda æfi sína í brennheitum faðmi sólarinnar.  Á miðnætti milli 15. og 16. desember fór hún næst sólu í u.þ.b. 120 þús. km fjarlægð, sem er tæplega helmingurinn af vegalengdinni til Tunglsins.  Hún bókstaflega sleikti því yfirborð sólarinnar á gífurlegum hraða og fór töluvert innfyrir sólkórónuna.  Mörgum að óvörum lifði hún af og sést nú með berum augum á suðurhveli jarðar, en hún hefur nokkurra milljón kílómetra langan hala.  Eftir því sem hún fjarlægist sólu minnkar hali hennar, sem gerður er úr ryki og gastegundum.  Vísindamenn telja að Lovejoy sé yfir 500 metrar í þvermál sem er þá 5 til 10 sinnum stærri en algengustu sólsleikjur, ella hefði hún ekki lifað af þessa hættulegu för sína í faðm sólar.  Það verður spennandi að sjá hvort hún lifi af næstu heimsókn sína !

  Sólsleikjurnar hafa mjög ílangar sporbrautir og ná mestum hraða næst sólu.  1996 fannst ein sem fór á yfir 1000 km hraða á sekúndu, en til samanburðar fer hin fræga halastjarna Halley (sást síðast 1986) á 50 km hraða á sekúntu.  Sólsleikjur geta fræðilega farið á allt að 1600 km hraða á sekúntu ef þær ferðast eins nálægt sólu og unnt er að komast.  Á þeim hraða væri hægt að fara frá Reykjavík til London á rúmri sekúndu!  Sólsleikjurnar lifa hratt og deyja ungar því sólin gleypir þær allar að lokum.  Hér að neðan er mynd af hala Lovejoy, tekin af ljósmyndaranum Colin Legg frá Ástralíu.


Kepler sjónaukinn

  Í síðustu færslu sagði ég frá því að Kepler hefði fundið reikistjörnu sem kæmist næst því að vera tvíburi jarðarinnar hvað lífvænleika snertir og hefur hún verið nefnd Kepler 22b.  Um leið gleymdi ég að nefna það að þessi Kepler er auðvitað sjónauki en ekki einhver náungi sem glápir út í himinhvolfið.

  Keplerssjónaukinn er geimsjónauki sem er sérstaklega hugsaður til að leita að reikistjörnum sem snúast í kringum fjarlægar sólir. Sjónaukinn fylgir jörðinni eftir og er staðsettur þannig að hvorki sólin, jörðin eða tunglið trufla útsýni hans.  Honum var skotið á loft 7. mars 2009 frá Canaveralhöfða í Flórída og var nefndur eftir þýska stjörnufræðingnum Jóhannesi Kepler og er hluti af Discovery verkefni NASA.  Þessi sjónauki er sá fyrsti sem getur greint reikistjörnur á stærð við jörðina í lífbelti annarra sóla.

  Sjónaukinn vinnur þannig að hann fylgist nú með birtu um það bil 150 þúsund stjarna á meginröð á svæði milli Svansins og Hörpunnar og greinir smæstu breytingar á birtu þeirra sem gætu bent til staðsetningu reikistjarna á braut um þær.  Í byrjun var sjónaukanum beint að hálfri milljón stjarna, en fljótlega var hægt að takmarka leitina við færri stjörnur, þar sem margar stjörnur reyndust vera of ungar eða þá að þær snerust of hratt eða voru of breytilegar.  Af þessum 150 þúsund stjörnum eru 90 þús. í sama flokki og okkar sól eða flokki G. Í upphafi var gert ráð fyrir að sjónaukinn myndi nýtast í allt að fjögur ár, en nú standa vonir til að hann geti nýst í allt að sex ár.

  Tilgangur þessara rannsókna var að finna út hve algeng sólkerfi eru og hvernig þau eru uppbyggð. Þess vegna þarf sjónaukinn að fylgjast með mjög stóru úrtaki af stjörnum.  Til þess að unnt sé að staðfesta tilvist reikistjarna í mikilli fjarlægð þarf að vera unnt að fylgjast með þeim ganga oftar en einu sinni fyrir sólu sína, svo unnt sé að staðfesta stærð þeirra, umferðartíma og fjarlægð frá sólunni.  Eðlilega hafa flestar fjarreikistjörnur sem hafa fundist hingað til verið gasrisar eins og Júpiter.

  Aðferðin sem notuð er er í stuttu og einföldu máli þannig að sjónaukinn mælir minnstu breytingar á birtu stjarna og þegar reikistjarna á stærð við jörðu gengur fyrir sólu sína minnkar birta sólar í þessari fjarlægð um nálægt 0,01 prómill og einungis í örfár klukkustundir.  Þessi birtubreyting og -lengd er skráð og þegar þessi birtubreyting endurtekur sig á sama hátt fást vísbendingar um umferðartíma, fjarlægð og stærð reikistjarnanna.  Það er augljóst að eitt stórt vandamál er þessu samfara sem sé að sjónlínan til hins fjarlæga sólkerfis verður að vera þannig að braut reikistjarnanna skyggi á viðkomandi sól og líkurnar á að svo sé eru ekki ýkja miklar.  Það gefur augaleið að skífan sem reikistjörnurnar eru staðsettar á er ekki ýkja breið og þessi staðreynd útilokar auðvitað afar mörg sólkerfi.  Þetta vandamál er því leyst með því að fylgjast með miklum fjölda sóla sem vinnur upp þennan galla.  Vísindamenn búast við að finna nokkur hundruð reikistjörnur að svipaðri stærð og jörðin.


Leitin af tvíbura jarðar.

  Margir áhugamenn um stjörnufræði fylgjast nú spenntir með fréttum af nýjum reikistjörnum sem finnast við fjarlægar sólir.  Fyrsta reikistjarnan fannst fyrir nokkrum árum og voru það í fyrstu risastórar plánetur, sem að öllum líkindum eru svipaðir gasrisar og Júpiter í okkar sólkerfi.

  Gallarnir við þessar fyrstu reikistjörnur voru einkum tveir, þær voru allt of stórar og svo voru þær of nálægt eða of langt frá sinni sól.  Þess vegna jókst spennan þegar sífellt voru að finnast fleiri reikistjörnur sem voru bæði minni og stundum í æskilegri fjarlægð frá sólu.

  Með tilkomu nýrri og nákvæmari sjónauka og markvissari aðferða við leitina að tvíbura jarðar, færast vísindamenn nær takmarki sínu og nú nýlega fannst reikistjarnan Kepler 22b, sem er sú vænlegasta hingað til.

  Reikistjarnan er  staðsett í lífbeltinu svokallaða við sína sól, en lífbelti er það svæði við viðkomandi sólu sem er með rétt hitastig eða lífvænlegt eftir okkar þekkingu.  Í þessari fjarlægð frá sólu eru líkur á því að fyrirfinnist vatn í fljótandi formi á yfirborði reikistjörnunnar.

  Sólin sem hýsir þessa reikistjörnu er aðeins minni en okkar sól, svo lífbelti hennar er örlítið nær sólu en hjá okkur.  Sólin er af sömu gerð og okkar sól, G-gerð, en örlítið kaldari og minni og er staðsett í 600 ljósára fjarlægð við stjörnumerkið Hörpuna.  Reikistjarnan fer umhverfis sólina á 289 dögum og því er árið styttra en hjá okkur.  Það sem er nýtt við þessa uppgvötun er að þetta er minnsta reikistjarnan sem hefur fundist í lífbeltinu, en áður höfðu fundist nokkrir risar sem voru í lífbeltinu við sínar sólir, en vegna ýmisssa ástæðna er ekki talið eins líklegt að slíkir risar séu lífvænlegir, enda líklegra að þar fyrirfinnist ekki fast yfirborð.  Þessi "nýja" reikistjarna er með 2,4 sinnum meiri radíus en jörðin og því u.þ.b. 30.000 km í þvermál og ef hún er úr bergi þá er hún margfalt massameiri en okkar jörð, sem veldur því að þyngdaraflið er meira þar en hér (íbúarnir eru smáir og mjóir). 

  Þessi fundur er sá sem er mest spennandi af mörgum nýlegum uppgvötunum, en áður hafa fundist a.m.k. tvær jarðlíkar plánetur sem ganga um minni og kaldari sólir en okkar og eru á mörkum lífbeltisins, svipað og Venus og Mars.

  Engin vafi er á því að þetta er stór áfangi í leitinni að finna tvíbura jarðar, sem er nýjasta kapphlaup geimvísindanna.  Og þetta er stórt skref í þá átt að svara stærstu spurningum okkar um alheiminn.  Nú hefur Kepler fundið 2326 reikistjörnur og hefur fjöldinn margfaldast á þessu ári.  Af þessum eru yfir 200 á stærð við jörðina.  Nú nýlega hafa fundist fjölmargar nýjar reikistjörnur á stærð við jörðina og fjöldi þeirra margfaldast á nokkrum mánuðum.


Af 35 efstu eru 4 utan af landi !

  Ef teknir eru 35 efstu í kjörinu þá versnar enn staða landsbyggðarinnar, því einungis fjórir af efstu 35 í kjörinu til stjórnlagaþings koma utan af landi.

  Nokkrir hafa haldið því fram að stjórnlagaþingsfulltrúarnir endurspegli vel þjóðina, en ég held reyndar að slíkar fullyrðingar muni ekki heyrast þegar menn ná áttum, því allir sjá að svo er ekki, í fyrsta lagi vegna hallans sem er á landsbyggðarfólkið og í öðru lagi vegna þess að hvelftin af þingfulltrúum eru fræðingar og fjölmiðlafólk, en ég fullyrði að það fólk gefur ekki góða spegilmynd af þjóðinni.  Ég vildi gjarnan heyra í þeim lesendum þessa bloggs sem eru á öndverðri skoðun, því það væri virkilega gaman að heyra rökin fyrir því að þetta sé spegilmynd af þjóðinni.

 


mbl.is Íris Lind var næst inn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband