Færsluflokkur: Bækur

Hreinasta konfekt - Árbók FÍ - Vestmannaeyjar.

  Fyrir ekki löngu síðan keypti ég árbók Ferðafélags Íslands 2009, sem að þessu sinni er helguð Vestmannaeyjum.

  Eftir að hafa lesið mig í gegnum þessa mjög svo fróðlegu bók, tel ég að hún sé nauðsynlegt rit á öllum Eyjaheimilum, þar sem hér er slík perla á ferðinni.  Bókina skrifar Guðjón Ármann Eyjólfsson, en kafla um jarðsögu eyjanna skrifa Ingvar A. Sigurðsson og Sveinn P. Jakobsson og kafla um fuglalíf ritar Jóhann Óli Hilmarsson.  Auk þeirra greinir höfundur frá fjölmörgum öðrum sem lögðu hönd á plóg og lásu yfir einstaka kafla.

  Bókin er um margt mjög ólík fyrri árbók FÍ um Vestmannaeyjar, sem kom út 1948, þar sem hér er lögð mest áhersla á úteyjarnar og staðháttum við eyjarnar allar lýst afar vel.  Í bókinni er sérstakur kafli um hverja útey ásamt korti og er hverri eyju lýst af staðkunnum manni.  Þetta voru kaflar um Elliðaey, Bjarnarey, Suðurey, Brand, Álsey, smáeyjar, Hellisey, Geldung, Súlnasker, Geirfuglasker og Surtsey, alls tæplega 100 bls.  Hafði ég mjög gaman af að lesa þessa kafla.
  Hér og þar voru sérstakir fróðleiksþættir fléttaðir inn frásagnir og gefur það bókinni aukið gildi, þetta voru þættir um  Gaujulund, kynjaskepnu á Brimurðarloftum, ævintýralandið Stórhöfða, Tíkartóardrauginn, Fiska- og náttúrugripasafnið, olnbogadrauginn, Fiskhellana, Sængurkonustein, Kafteinn Kohl og Herfylkinguna, Þjóðhátíð fyrir einni öld, Sprangan, frásögn frá upphafi jarðeldanna, lýsing á veiði í Elliðaey, frásögn frá atburði við Hænu og í Kafhelli, Svaltrossi í Hellisey, sig í stórhellana 1913, frásögn þýsks fuglaskoðara frá 1925, vegur lagður í Geldung 1897, bæn Skergöngumanna, skipting veiði í Súlnaskeri, búningur fýlamanns, landtaka í Surtsey 19. febrúar 1964 og ögurstund við Syrtling.
  Mér taldist svo til að í bókinni væru heildarfjöldi korta  16., auk þverskurðarmynda (bls. 24) og  þrívíddarmynda (bls. 25) og eru þá ótaldar loftmyndir og kort yfir búsvæði fugla.

  Allt leggst á eitt við að bókin er hreinasta konfekt :

  1) Margar stórkostlegar myndir.
  2) Frábær kort, sérstaklega af úteyjunum, en einnig kort af hafsbotninum auk jarðfræðikorta og
      gamalla korta.
  3) Lifandi og léttur frásagnarstíll.
  4) Mikill fróðleikur á fáum síðum.
  5) Sögulegum þáttum er gerð góð skil, en þó ekki í löngu máli , sem er vandaverk þar sem um
      margt hefur áður verið mikið ritað, svo sem Surtseyjar- og Heimaeyjargosin.

  Ef það er eitthvað sem unnt er að finna að þá fær maður það stundum á tilfinninguna við lesturinn að það sé eins og sumt hafi verið skrifað fyrir æði löngu síðan og nefni ég þá bara eitt atriði hér í dæmaskyni.  Þegar þjóðhátíð er lýst þá eru nefndar götur heimamanna og nefndar til nöfn eins og Ástabraut, Veltusund, Flugbraut, Kaldabraut o.s.frv., en sá sem þetta ritar hefur verið á síðustu 12 hátíðum og kannast aðeins við fyrstu 2 nöfnin.
  Einnig má auðvitað finna að ýmsu sem vantar í bókina, svo sem um veðurofsann og veðurstöðina á Stórhöfða, en það verður þó að taka með í reikninginn að svona bók getur aldrei orðið tæmandi, þá væri annað og þriðja bindið fljótt að fyllast.

  Ég verð að gefa bókinni 5 stjörnur (í flokki fræðibóka), en ég er auðvitað ekki hlutlaus.

http://www.fi.is/files/Arbok09_kapa2-vef-150_834455199.jpg Margar stórkostlegar myndir eru í bókinni.

Stjörnur: *****

5 * : Stórkostlegt - Verður ekki betra.
4 * : Frábær bók - alls ekki missa af henni.
3 * : Góð bók / athyglisverð - Tímans virði.
2 * : Allt í lagi - ágætis afþreying ef annað er ekki á dagskrá.
1 * : Slöpp bók - Leiddist lesturinn.
0 * : Eitt það versta sem ég hef lesið.


Sandgreifarnir eru stórgóð lesning.

  Las fyrir nokkru síðan Sandgreifana eftir Björn Th. Björnsson, en hafði nokkrum sinnum verið að grennslast eftir þessari bók, þar sem ég vissi að hún hafði að geyma bernskusögur höfundar úr Vestmannaeyjum.  Og í vor náði ég henni loksins á fornbókaverslun og sá ekki eftir því.

  Ég skemmti mér stórvel yfir bráðskemmtilegri og fyndinni bók.  Skellti oft upp úr við lesturinn og frásagnarlist Björns er hreint stórkostleg, sérstaklega hvernig hann nær talsmáta strákana þannig að maður finnst maður hreinlega heyra í peyjunum.   Skyldulesning fyrir áhugamenn um Eyjarnar.  Atburðir gerast fyrir stríð á árunum í kringum 1935-6.  Grípum niður í það þegar strákarnir eru að leita að nafni á fótboltafélagið sitt :

 > En félag er ekki félag nema það heiti eitthvað. Eitthvað glæsilegt. - Heimaklettur!  - Ertuorðinn vittlaus! Heimaklettur fótboltafélag!- En fugl? - Jahá! Fugl! En ekki neitt af þessum hénna venjulegu! Ekki Lundinn! Allir fóru að skellihlæja. - Súlan? - Þeir eru alltaf að drepana. Og so er hún alltaf a stinga sér. - Örninn! - Þar helvítis ránfugl. Tók barn í Reykjavík. Þa stóð í blöðunum. Þa eiga allir að drepann sem geta. En um það bil sem náttúrufræðin var að verða upp urin, fær einhver hugmynd; og þó ekki. Svoleiðis var, að mamma geymdi matvöru á efra miðstöðvargólfinu, kassa og poka með sykri, rúgi  og hveiti og svoleiðis, og fremst í staflanum blasti einmitt við okkur hvítur hveitipoki með blárri fuglsmynd og stórum stöfum í boga fyrir ofan og neðan: SWAN WHEAT. - Kver er stærstur og fallegastur af öllum fuglum? spurði sá með uppljómunina.  Þótt það væri einmitt sá fugl sem við höfðum aldrei á ævinni séð, nema kannski þeir sem verið höfðu í sveit þá lauk nú allur hópurinn upp einum munni: Álftin! Hér þurfti því ekki frekari umræðna við, og þennan vordag í miðstöðinni í Drífanda var fótboltafélagið Álftin stofnað <

  Bókin fjallar um stráka í Eyjum, sem eru að fá hvolpavitið og ýmislegt kemur þeim undarlega fyrir sjónir og heimurinn er ekki eins og hann sýnist.  Frábær lesning.

  Verð að gefa bókinni með hæstu einkunnum, þó ég sé e.t.v. kannski hlutdrægur þar sem ég er líka að lesa bókina til þess að kynnast Eyjunum fyrr á tímum.

http://www.gvendur.is/wp-content/uploads/wpsc/product_images/1252159032IMG_0025.jpg  Bókin er gefin út 1989 um 160 bls.

Stjörnur: ****

5 * : Stórkostlegt - Verður ekki betra.
4 * : Frábær bók - alls ekki missa af henni.
3 * : Góð bók / athyglisverð - Tímans virði.
2 * : Allt í lagi - ágætis afþreying ef annað er ekki á dagskrá.
1 * : Slöpp bók - Leiddist lesturinn.
0 * : Eitt það versta sem ég hef lesið.


Gróður jarðar - bók sem geymir gullkorn.

  Ég var í sumarbústað í Eyjafirði í vikunni sem leið, þar sem við vorum að fylgjast með enneinn mótinu.  Lítið var af bókum í bústaðnum, en þó var þar ein eftir Knut Hamsun, Gróður Jarðar, sem ég tók auðvitað og fór að lesa.  Það má segja að hún hafi komið skemmtilega á óvart og hafði ég mikið gaman af.

  Það vildi líka þannig til að fyrr í vor las ég mína fyrstu bók eftir Knut, Sultur, sem var nokkru tormeltari, en samt sérkennilega góð.

  Gróður Jarðar (Markens Gröde) fallar um Ísak sem fer upp á heiði og brýtur sér land til ræktunar.  Smám saman eykst hans bústofn og Ingigerður kemur og hún verður hans kona og síðar koma börnin, Eleseus, Sigvarður og tvær yngri dætur.  Fjallað er um barn sem Ingigerður elur og drepur í fæðingu og þar eru ýmis refsiréttarleg sjónarmið sem koma fram og eru bakgrunnur mildandi refsiákvæða um slíkt athæfi.  Þannig er fylgst með lífinu á heiðinni og striti þeirra hjóna.  Sagan gerist norðarlega í Noregi skammt frá landamærum Svíþjóðar, en þarna kemur líka flökkufólk, Ólína, sem verður mikill örlagavaldur og ýmsir Lappar, svo ekki sé minnst á gamla Lénsmanninn sem rekinn var úr starfi, Geissler og verður mikill vildarvinur þeirra hjóna í Landbrotum, en svo hét bærinn.  Smám saman fjölgar á heiðinni og nokkur nýbýli rísa, en mönnum gengur misjafnlega.  Breði í Breiðablikum er latur og á alltaf í basli og hinir og þessir.  Ísak stritar þó alla bókina út og skuldar aldrei neinum neitt og stöðugt stækkar hans býli og verður loks fyirrmynd annarra.  Synir Ísaks í Landbrotum eru mjög ólíkir, Eleseus er á bókina og venst letilífi í kaupstaðnum og þegar hann hefur sólundað miklu fé frá foreldrum sínum fer hann til Ameríku.  Sigvarður er eftirmynd föður síns, hörkuduglegur og tekur við í fyllingu tímans.

  Margt ber til tíðinda á löngum tíma, án þess ég tíundi það hér nákvæmlega, en seinna koma menn sem vilja fara að hefja námugröft í fjöllunum og græða peninga.  Námuvinnslan hefst og mikill peningur kemst í sveitina, en brátt hætta þeir greftrinum og allt fellur í samt horf við mikla óánægju margra, þeirra sem keyptu fjallið og þá líka Aronsen kaupmanns, sem ætlaði að græða á auknum viðskiptum og finnst hann illa svikinn.

  Í lok bókarinnar eiga þeir tal saman Sigvarður og Geissler, gamli Lénsmaðurinn.  Geissler er svona áhorfandi og þó mesti áhrifavaldur í sveitinni og kennir unga manninum lífsreglurnar og segir : "Það eru ekki peningar sem landið þarf, landið hefur meira en nóg af peningum, það eru menn eins og Ísak, faðir þinn sem ekki er nóg af, það þarf 32 þúsund slíka menn í landið, ég hef reiknað það út."

  Hann bætir við um stórgróðamennina sem ætluðu að græða fljótt á námugreftrinum : "Menn gera tækið að takmarki og stæra sig af, þeir þekkja ekki plóginn, þeir þekkja ekki nema teninginn. En þeir eru ekki þarflegir, brenna þeir ekki upp sjálfa sig í æði sínu ?  Líttu á þá, þeir leggja allt í hættu !  Það er bara að þetta hættuspil er ekki ofurhugur, það er ekki einu sinni hugrekki, það er skelfing.  Veistu hvað er hættuspil ?  Það er angistin með sveitt enni.  Glapræðið er að þeir vilja ekki verða lífinu samferða, þeir vilja komast hraðar en það.  Þeir reka sig eins og fleygar inn í lífið, svo síga hliðarnar að þeim og lífið mylur þá hægversklega en hiklaust.  Svo byrja klögumálin yfir lífinu, heiftin gegn lífinu."

  Gæti ekki átt betur við enn í dag, næstum öld seinna.

  Um fólkið í Landbroti sagði Geissler : "Frá kynslóð til kynslóðar eruð þið til og þegar þið deyjið tekur hinn nýji gróður við.  Það er þetta sem átt er við með eilífu lífi."

  Ég mæli eindregið með bókinni.  Svo verð ég að fara að skrifa um aðrar bækur sem ég hef lesið nýlega, bækur eins og Sultur, Lesarinn og nokkrar aðrar sem ég hef gleymt í augnablikinu.

Stjörnur: ***** 

5 * : Stórkostlegt - Verður ekki betra.
4 * : Frábær bók - alls ekki missa af henni.
3 * : Góð bók / athyglisverð - Tímans virði.
2 * : Allt í lagi - ágætis afþreying ef annað er ekki á dagskrá.
1 * : Slöpp bók - Leiddist lesturinn.
0 * : Eitt það versta sem ég hef lesið.


Eyjafjallamálin 1891.

  Var að klára bók sem fjallar um ótrúlega atburði, sem gerðust á árunum 1890-1895 undir Eyjafjöllum.  Bókin heitir "Fár undir fjöllum" og er eftir Kristinn Helgason og er gefin út 1994 eða rétt hundrað árum eftir atburðina.  Kunningi minn, sem ættaður er undan fjöllunum, lánaði mér bókina.

  Mál þetta virðist hefjast þegar Páll Briem er hinn 1. sept. 1890 skipaður sýslumaður í Rangarvallasýslu, en Austur Eyjafjallahreppur heyrði undir þá sýslu.  Tveimur mánuðum seinna fer sýslumaður í þennan hrepp og hittir hreppstjórann og helsta höfðingjann í sveitinni, Þorvald á Þorvaldseyri.  Til þess að gera langa sögu stutta hefst hann þegar handa við að yfirheyra mikinn fjölda fólks í sveitinni og leitast við að finna eitthvað ólöglegt hjá flestum, oftast að þeir hafi gerst of fingralangir við rekatöku.  Allt þetta gerir hann án þess að nokkur kærir neinn stuld.

  Gengur hann hart fram og iðulega er fólkið lokað inni í lengri eða skemmri tíma oft í köldum útihúsum.  Stundum vikum saman.  Enginn miskunn var sýnd sveitafólkinu og börn niður í 12 ára og blind gamalmenni voru tekin í hörku yfirheyrslur, ef menn voru með mótþróa voru þeir fluttir í strigapokum á fund yfirvaldsins.  Hvelftin af sveitinni var sett í farbann misserum saman og máttu ekki fara úr hreppnum og gátu ekki farið í sjóróðra eins og margir gerðu út í Vestmannaeyjar til bjargar sínum fjölskyldum.  Málareksturinn tók fleiri missseri og oft var verið að rannsaka spýtnatökur allt niður í hálfgerð sprek.  Flestir voru dæmdir sekir til greiðslu smárra sekta, sem þó dugði til þess að þeir þurftu að greiða himinháan málskostnað.  Margir fátækir bændur misstu allt sitt og sumir heilsuna og einn gamall maður veiktist eftir fangavist í köldu útihúsi og lést mánuði seinna.

  Það einkennilega við þetta allt saman var helst það hversu mikið þurfti til að koma þar til menn fóru að mótmæla þessum aðförum.  Fólk virtist ekki hafa nokkra innistæðu til að svara þessum oft ósanngjörnu ásökunum.  Varla var í sveitinni nokkur ritfær maður sem gat kvartað til réttra yfirvalda, þó það hafi verið gert á síðari stigum.

  Lærdómurinn af þessum lestri fyrir mig er kannski helst sá hve mikilvægt er að í öllum byggðum landsins búi réttsýnt fólk.  Þess vegna finnst mér mikilvægt að ríkið og stofnanir þess komi sér ekki bara fyrir á einum stað á landinu.  Það verður til þess smátt og smátt að byggðir þar sem frumvinnslugreinar eru stundaðar verða undir og þá skapast aðstæður fyrir óréttlæti eins og gerðist í Austur Eyjafjallahreppi fyrir hundrað og fimmtán árum síðan.

Stjörnur: ** ( athyglisverð )

5 * : Stórkostlegt - Verður ekki betra.
4 * : Frábær bók - alls ekki missa af henni.
3 * : Góð bók / athyglisverð - Tímans virði.
2 * : Allt í lagi - ágætis afþreying ef annað er ekki á dagskrá.
1 * : Slöpp bók - Leiddist lesturinn.
0 * : Eitt það versta sem ég hef lesið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband