Jóla - Sólsleikja.

  Orðið Sólsleikja er nafn úr stjörnufræðinni, sem hefur verið haft yfir halastjörnur sem fara mjög nálægt sólunni á ílangri braut sinni langt utan úr sólkerfinu framhjá sólunni.  Þessar halastjörnur fara svo nálægt sólu að ótrúlegt er að þær skuli yfirleitt lifa af heimsóknina, því þið getið rétt ímyndað ykkur hitann sem þær lenda í.

  Hinn 2. desember s.l. fann stjörnuáhugamaðurinn og ástralinn Terry Lovejoy halastjörnu sem reyndist vera af þessari tegund og var hún auðvitað skírð eftir honum.  Þessi halastjarna fer um sólu á 314 árum og heimsækir því sólina aftur árið 2325 eftir óralangt ferðalag sitt alla leið úr Oortskýinu sem er langt utan við braut Plútó.

  Fyrirfram bentu útreikningar stjörnufræðinga til þess að allt eins væri líklegt að Lovejoy myndi enda æfi sína í brennheitum faðmi sólarinnar.  Á miðnætti milli 15. og 16. desember fór hún næst sólu í u.þ.b. 120 þús. km fjarlægð, sem er tæplega helmingurinn af vegalengdinni til Tunglsins.  Hún bókstaflega sleikti því yfirborð sólarinnar á gífurlegum hraða og fór töluvert innfyrir sólkórónuna.  Mörgum að óvörum lifði hún af og sést nú með berum augum á suðurhveli jarðar, en hún hefur nokkurra milljón kílómetra langan hala.  Eftir því sem hún fjarlægist sólu minnkar hali hennar, sem gerður er úr ryki og gastegundum.  Vísindamenn telja að Lovejoy sé yfir 500 metrar í þvermál sem er þá 5 til 10 sinnum stærri en algengustu sólsleikjur, ella hefði hún ekki lifað af þessa hættulegu för sína í faðm sólar.  Það verður spennandi að sjá hvort hún lifi af næstu heimsókn sína !

  Sólsleikjurnar hafa mjög ílangar sporbrautir og ná mestum hraða næst sólu.  1996 fannst ein sem fór á yfir 1000 km hraða á sekúndu, en til samanburðar fer hin fræga halastjarna Halley (sást síðast 1986) á 50 km hraða á sekúntu.  Sólsleikjur geta fræðilega farið á allt að 1600 km hraða á sekúntu ef þær ferðast eins nálægt sólu og unnt er að komast.  Á þeim hraða væri hægt að fara frá Reykjavík til London á rúmri sekúndu!  Sólsleikjurnar lifa hratt og deyja ungar því sólin gleypir þær allar að lokum.  Hér að neðan er mynd af hala Lovejoy, tekin af ljósmyndaranum Colin Legg frá Ástralíu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Áhugavert,já allt um sólir.nýuppgötvaðan hraða,sem fer framúr ljóshraða,en gerir mann stundum ringlaðan. Gleðileg Jól.

Helga Kristjánsdóttir, 27.12.2011 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband