Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Endurnýjun í dýralífi
Það er rætt um að Mýrabruninn hafi slæm áhrif á dýra- og plöntulíf á svæðinu. Það er þekkt erlendis frá þar sem skógareldar geysa einatt að þessir brunar eru nokkurs konar endurnýjunarþáttur í dýra- og plöntulífi, þar sem eldri einstaklingar og jafnvel tegundir gefa eftir og nýjir taka við á viðkomandi svæði.
Svona hamfarir séu þannig tækifæri til endurnýjunar og ekki alslæmt að öllu leyti. Hér á Íslandi höfum við sem betur fer ekki oft orðið vitni að þessu, enda okkar Fauna miklu minni, fátæklegri og viðkvæmari en í heitari löndum og síðast en ekki síst tekur það okkar vistkerfi miklu lengri tíma að komast í samt lag og jafna sig eftir slíkar hamfarir.
Bendi ykkur einnig á að lesa grein/blogg hér við þessa frétt um hornsíli. Það verður gaman verður að fylgjast með rannsóknum á dýra- og plöntulífi eftir Mýrabrunann.
Bruninn hafði slæm áhrif á jurtir en góð á fugla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Herfylkingin í Vestmannaeyjum
Eini herinn sem með réttu hefur verið til á Íslandi var stofnaður 1853 í Vestmannaeyjum og haldið úti með miklum myndarbrag allmörg ár og ekki aflagður fyrr en tæpum tveimur áratugum seinna. Þessi herflokkur kallaðist Herfylkingin og hér er ágrip af sögu hennar.
Stofnandi Herfylkingarinnar var sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum, Andreas August von Kohl. Hann var skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum sumarið 1853 og gengdi því embætti til dauðadags 22. janúar 1860. Kona hans var Pauline Marie Baltzartine, en hún kom aldrei til Vestmannaeyja.
Kafteinn Kohl, eins og hann var nefndur í Vestmannaeyjum var fæddur í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku 1814. Hann tók kandídatspróf í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1839 og varð síðar aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn. Þegar hann kom til Eyjanna var flest hér í sínu aldagamla horfi og eimdi enn eftir af ótta fólks við sjóræningja, einkum Tyrki.
Útlendir duggarar fóru stundum með ránskap og sýndu yfirgang og ofstopa á fiskimiðunum og við eggver og fuglabjörg voru þeir einatt nærgöngulir. Var og talið að þeir myndu stundum seilast eftir sauðfé í úteyjum. Eftir miðja 19. öld voru miklar umkvartanir héðan af landi til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn yfir ofstopa og yfirgangi erlendra sjómanna. Á fyrri tíð höfðu erlendir sjóræningjar nokkrum sinnum gert sig heimakomna í Eyjum fyrir daga Tyrkjaránsins og dæmi um mannvíg af völdum þessara manna.
Stórrán voru framin í Eyjum árið 1484 og 1614. Og lengi eftir Tyrkjaránið 1627 var varðstaða á Helgafelli til þess að fylgjast með skipaferðum. Sú saga er efni í aðra grein, en í stuttu máli var með vökudómi Odds Magnússonar um 1670 staðfestar venjur og reglur um vöku á Helgafelli og virðist á þeim dómi sem vakan hafi verið tekin upp á árunum eftir Tyrkjaránið og hafi hún staðið áfram. Í dóminum var tilhögun um vökuna lýst nánar eins og ég mun e.t.v. gera síðar hér.
Þá höfðu aðfarir Jörundar hundadagakonungs 1809 sýnt landsmönnum, hve vanbúin þjóðin var gegn árásum útlendinga sakir vankunnáttu í vopnaburði og samtakaleysi.
Andreas Kohl sýslumaður hafði áður en hann vann í ráðuneytinu í Kaupmannahöfn lengi lagt fyrir sig hernaðarstörf. Hann hafði þegar á stúdentsárunum gengið í "Kongens Livkorps" í Kaupmannahöfn og varð undirliðsforingi. Liðsforingjanafnbót hlaut hann 1840 og var gerður að kapteini og flokksforingja 1843. í Slésvíkurstríðinu hélt hann uppi heræfingum. Hann var af gömlum hermannaættum, faðir hans var kapteinn í danska sjóliðinu og yfirforingi á Kristiansö. Varði hann eyna af mikilli hreysti í dansk-enska stríðinu 1807.
Kohl var röggsamlegt yfirvald í Vestmannaeyjum, svo lengi var í minnum haft. Hér gat Kohl sinnt hugarefnum sínum, heræfingum og herþjálfun og samrýmt þetta störfum lögreglustjóra. Hann var ekki búinn að vera hér lengi þegar hann hugði á stofnun hersveitar í eyjunum. Ætlaðist hann til að allir verkfærir menn gengu í eina liðsveit, Herfylkingu Vestmannaeyja, af fúsum og frjálsum vilja. Væri þá fengin með þessu varnarsveit gegn árásum útlendinga, ef á þyrfti að halda og lögreglusveit til að halda uppi aga innanhéraðs. Hersveitin átti að aðstoða og hjálpa til að halda uppi aga og reglu á vertíðinni einkum og á kauptíðinni, er fjöldi manna safnaðist til eyjanna.
Að ætlun Kohl skyldi samfelldur agi og þjálfun koma eyjamönnum sjálfum að gagni í atvinnu þeirra, sjósókn og úteyjasókn, sem var innt af hendi í samfélagi með samvinnu bænda. Helstu formennirnir í Vestmannaeyjum urðu flokkstjórar í Herfylkingunni. Aðalmarkmiðið með stofnun Herfylkingarinnar var samt að koma upp fullkomnu landvarnarliði hér, sem væri til taks ef á væri ráðist.
Þótt Kohl að vísu muni ekki hafa talið að óttast þyrfti eiginlega sjóræningja, sem margir hér voru þó hræddir við, mátti samt búast við illdeilum og yfirgangi af hendi erlendra fiskimanna, sem oft voru nærgöngulir fiskimiðum og spilltu veiðarfærum manna. Með stofnun Herfylkingarinnar var og miðað að því að reyna að stemma stigu við hinum sívaxandi drykkjuskap í eyjunum, búðarslangri og stöðum manna. Skyldi og með auknu félagslyndi og samstörfum elfd snyrtimennska og háttprýði manna á meðal. Einn þátturinn hér í og var þjálfun, er heræfingarnar veittu sem íþróttir og líkamsiðkanir, sem mjög var nauðsynleg mönnum, er hlaðnir voru einhæfum störfum.
Þá átti Herfylkingin hlutverki að gegna í skemmtunum og uppfræðslu í hinu opinbera lífi í Eyjum. Kohl fékk þegar fylgi helstu manna eyjanna til að koma fram áformum sínum og byrjaði skömmu eftir komu sína að kenna mönnum vopnaburð. Sýslumaður skipaði niður í sveitir og vann að liðþjálfuninni af hinu mesta kappi. Einkennisbúninga höfðu menn ekki fyrst í stað og ekki vopn önnur en trévopn. En úr þessu rættist von bráðar.
Kohl skrifaði dönsku dómsmálastjórninni 1855 og sendi jafnframt umsókn og beiðni eyjabúa til stjórnarinnar um að mega stofna herflokk (Militz) til varnar útlendingum, ef á þyrfti að halda. Einnig til að halda uppi aga og reglu á eyjunum og að vinna gegn áfengisbölinu. Kveðast eyjamenn þó ekki geta ráðist í stórræði þetta nema stjórnin samþykki stofnun flokksins og ljái lið með því að senda hingað nauðsynleg stríðsáhöld, eins og komist er að orði. Sýslumaður lét auðvitað fylgja meðmæli sín. Stjórnin tók málið upp og leitaði umsagnar hermálaráðuneytisins. Í svari dómsmálaráðuneytisins danska hingað 19. maí 1855, segir að hermálaráðuneytið hafi upplýst að bæir og héruð sem sjálf hafi æft vopnalið, fái eigi vopn úr vopnabúri konungs nema gegn fullri greiðslu. Samt lagði ráðuneytið svo fyrir að hermálaráðuneytið sendi til Vestmannaeyja eftir nánari tilvísun íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn 30 byssur með tilheyrandi skotfærum til Vestmannaeyja. Byssur þessar komu síðan sumarið 1856 úr vopnabúri Kaupmannahafnar (Arsenalet).
Kohl herti á því í bréfi til Stiftamtsins 28. júlí 1856 að fá til viðbótar fleiri byssur og fleiri áhöld, t.d. fimm korða handa yfirmönnum hersveitarinnar, bumbu og margt fleira, er sveitin gæti ekki án verið. Stiftamtmaður lagði eindregið með því við stjórnina að sinnt yrði að fullu málaleitan sýslumanns. Með konungsúrskurði 29. júlí 1858 var ákveðið að 200 ríkisdalir af 4000 ríkisdala framlagi til óvissra útgjalda skyldi veita til Vestmannaeyja til þess að vopnbúa herliðið þar. Þessi síðari vopnasending kom frá Kaupmannahöfn í september 1858. Átti nú Herfylkingin 60 fótgönguliðsbyssur, riffla með stingjum og nokkra korða og margs konar önnur áhöld, s.s. leðurtöskur. Herfylkingunni bárust og gjafir frá einstökum mönnum, fánastöng og silkifáni og gaf sýslumaður sjálfur ýmsa muni.
Árið 1857 var Herfylkingin komin fyllilega á stofn. Voru þá samdar reglur fyrir hana og segir þar að aðaltilgangurinn sé að veita viðnám og hrinda af sér árásum útlendinga og einnig til að hjálpa til að halda uppi reglu og aga hér. Ítarlegar reglur voru settar um reglusemi og stundvísi liðsmanna Herfylkingarinnar, en of langt mál að geta þeirra hér.
Til glöggvunar á stærð og umfangi Herfylkingarinnar var hún skipuð þessum árið 1859: Yfirfylkingarstjóra, sem var sýslumaður sjálfur, Yfirliðsforingja, Liðsforingja, yfirflokksforingja, fánabera, tveimur bumbuslögurum, 5 drengjum og síðan voru fjórir herflokkar, hver þeirra með þremur deildum en 5 menn voru í hverri deild auk drengjasveitar með tveimur sjö drengja deildum. Alls voru þá í Herfylkingunni á því ári 103 liðsmenn. Með hliðsjón af mætingarskyldu hlýtur umfangið að hafa verið stórkostlegt.
Eftir lát Kapteins Kohls 1860 var Herfylkingin starfrækt áfram um nokkura ára skeið, en af ýmsum ástæðum varð fylkingin smám saman þunnskipaðri, en af heimildum má ráða að hún hefur enn verið við lýði 1868, en lognast út af á árunum þar á eftir.
Áhrifa Herfylkingarinnar gætti lengi hér í Eyjum, reglusemi hafði stórlagast og íþróttaiðkun jókst. Stofnun Herfylkingarinnar hleypti miklu fjöri í skemmtana- og félagslíf hér. Skemmtisamkomur voru þá haldnar árlega í Herjólfsdal, svo ekki eru þær alveg nýjar af nálinni í dalnum, en þar var helsta æfingasvæði Herfylkingarinnar, þar sem liðsmenn hennar æfðu ýmsar íþróttir og urðu æfingar hennar þar e.t.v. til þess að skömmu síðar eða 1874 var haldin fyrsta þjóðhátíðin í dalnum.
Heimildir:Byggt að mestu úr Sögu Vestmannaeyja, e. Sigfús M. Johnsen, Fjölsýn Forlag, Reykjavík 1989, en einnig Byggðir og Bú, Reykjavík 1997 og við Ægisdyr, e. Harald Guðnason, Stofn Reykjavík 1991.
Vísindi og fræði | Breytt 14.2.2007 kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 8. febrúar 2007
Glæpur & Refsing
Hver er tilgangur refsinga ?
Tilgangurinn er margþættur, í fyrsta lagi að betra afbrotamanninn, í öðru lagi að refsa honum og í þriðja lagi að senda öðrum skilaboð og svona mætti e.t.v. hnýta fleiru við þessa upptalningu.
Að senda mann í fangelsi til að betra hann hefur verið mjög umdeilt, svo ekki sé meira sagt. Margir hafa sagt að í fangelsum kynnist ungir afbrotamenn þeim harðsvíruðu og læri af þeim. Fari síðan út og séu þá í raun útlærðir afbrotamenn. Yfirvöld hafa reynt að koma á móts við þessar athugasemdir og farið ýmsar leiðir til að betra fanga.
Flestir telja að refsa beri þeim sem brýtur lögin, hann eigi að fá refsingu við hæfi. Þarna er í raun verið að skamma hann eða slá á hendurnar á honum. Ef þú ekur of hratt færðu sekt. Ef þú stelur ferðu í fangelsi. Ef morð er framið fer morðinginn lengi í fangelsi og í sumum löndum er refsingin dauði, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.
Megintilgangur refsinga er auðvitað að senda öðrum skilaboð um að ef þeir brjóti af sér þá fái þeir refsingu og hefur þetta örugglega fælandi áhrif. Menn brjóta síður af sér vegna þessa - Eða svo skyldi maður ætla.
Þetta er áhugavert umræðuefni í tenglsum við margt sem nú er til umræðu í þjóðfélaginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 7. febrúar 2007
Ljósmengun
Í gær fór ég austur fyrir fjall í sumarhús í Reykholti, Biskupstungum, sem er reyndar ekki í frásögur færandi, en þarna gafst mér tækifæri á að virða svolítið fyrir mér stjörnuhimininn, enda heiðskírt og stjörnubjart. Það er alltaf gaman á svona kvöldum.
Af þessu tilefni verður mér hugsað til þess að nú eru að alast upp kynslóðir sem upplifa þetta afar sjaldan, því í borgarljósunum sjást ekki nema allra björtustu stjörnurnar og varla það. Stjörnuskoðun er að verða forréttindi í "upplýstum" borgum nútímans.
Það er alltof mikið um það að verið er að lýsa upp að óþörfu. Hver setti t.d. upp skjannabjarta ljósið hægra megin við þjóðveg 1 við afleggjarann upp í Bláfjöll? Það er gott dæmi um óþarfa ljósmengun. Það virðist ekki þurfa nein leyfi til þessarar mengunar !
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)