Færsluflokkur: Kvikmyndir

Hinir vondu Persar ***

  Fór á myndina ´300´á fimmtudagskvöldið, eftir stutta fundarferð á Selfoss, en áætlun mín um að taka Herjólf eftir fund brást þar sem ferðinni var aflýst vegna veðurs.

  Myndin er byggð á myndasögu Frank Miller og á að gerast 380 f.Kr. og segir frá bardaganum við Thermopylae þegar Xerxes I Persakonungur barðist með ofurefli liðs (100-300 þús. menn) við Spartverja (300 eða eilítið fleiri) undir stjórn Leónítas.  Margir hafa talið myndina hina verstu sögufölsun, þar sem Persar eru sýndir sem ýmis kvikindi og megi síns lítils gegn hinum hugumprúðu, velþjálfuðu Spartverjum sem allir eru með magavöðva eins og sjást bara í vaxtaræktarkeppnum, sixpakkinn er skilyrði fyrir að fá að leika Spartverja.

Ég fékk það sterklega á tilfinninguna þegar ég var að horfa á myndina að hér væri áróður á ferðinni.  Verið væri að stappa stálinu í Bandaríkjamenn, þeir ættu ekki að gefast upp í baráttunni við hina vondu, nefnilega hryðjuverkamenn og þessi hugmynd fær fullkomna spegilásýnd í myndinni  sjálfri þar sem Persar eru jú forfeður þjóðanna í Írak og Íran.

  Ekki þurfti maður mikið að íhuga á meðan á myndinni stóð, hún var ekki flókin, nokkur alþekkt þema; svikarinn, hetjurnar sem aldrei gefast upp fyrir hinu illa, boð um frægð og frama gegn afsali sjálfstæðisins, líkamlegt falboð Gorgo konu Leónítas til stuðnings honum o.s.frv.

  Það að Spartverjarnir voru að verja fósturjörðina sjálfa fyrir innrás Persanna skiptir í raun litlu ef verið er að spegla nútímann, því Bandaríkjamenn telja auðvitað að þeir séu að verja fósturjörðina fyrir árásum hryðjuverkamanna og það stríð verði háð heima og heiman.

  Spartverjarnir voru í hlutverki góðu gæjanna sem aldrei gefast upp fyrir hinu vonda. Xerxes var svona valdasjúk hommatípu hálfguð.  Innrásarbylgjur Persana minntu mig á lýsingar úr Vetrarstríðinu þegar Rússar sendu hverja hrúguna af annari af fallbyssufóðri til þess að freista þess að vinna á Finnsku víglínunni.

  Myndin er þó hin besta skemmtun ef menn vilja horfa á magavöðva og dráp, stundum koma þó langir rólegir kaflar sem eru þessum bíógestum ekki til skemmtunar.  Þá verð ég að hrósa herbúnaðinum í myndinni, hljóðeffektum og hægum bardagasenum og tæknibrellum sem munu gleðja augu þeirra sem dá slíkt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband