Þriðjudagur, 6. desember 2011
Leitin af tvíbura jarðar.
Margir áhugamenn um stjörnufræði fylgjast nú spenntir með fréttum af nýjum reikistjörnum sem finnast við fjarlægar sólir. Fyrsta reikistjarnan fannst fyrir nokkrum árum og voru það í fyrstu risastórar plánetur, sem að öllum líkindum eru svipaðir gasrisar og Júpiter í okkar sólkerfi.
Gallarnir við þessar fyrstu reikistjörnur voru einkum tveir, þær voru allt of stórar og svo voru þær of nálægt eða of langt frá sinni sól. Þess vegna jókst spennan þegar sífellt voru að finnast fleiri reikistjörnur sem voru bæði minni og stundum í æskilegri fjarlægð frá sólu.
Með tilkomu nýrri og nákvæmari sjónauka og markvissari aðferða við leitina að tvíbura jarðar, færast vísindamenn nær takmarki sínu og nú nýlega fannst reikistjarnan Kepler 22b, sem er sú vænlegasta hingað til.
Reikistjarnan er staðsett í lífbeltinu svokallaða við sína sól, en lífbelti er það svæði við viðkomandi sólu sem er með rétt hitastig eða lífvænlegt eftir okkar þekkingu. Í þessari fjarlægð frá sólu eru líkur á því að fyrirfinnist vatn í fljótandi formi á yfirborði reikistjörnunnar.
Sólin sem hýsir þessa reikistjörnu er aðeins minni en okkar sól, svo lífbelti hennar er örlítið nær sólu en hjá okkur. Sólin er af sömu gerð og okkar sól, G-gerð, en örlítið kaldari og minni og er staðsett í 600 ljósára fjarlægð við stjörnumerkið Hörpuna. Reikistjarnan fer umhverfis sólina á 289 dögum og því er árið styttra en hjá okkur. Það sem er nýtt við þessa uppgvötun er að þetta er minnsta reikistjarnan sem hefur fundist í lífbeltinu, en áður höfðu fundist nokkrir risar sem voru í lífbeltinu við sínar sólir, en vegna ýmisssa ástæðna er ekki talið eins líklegt að slíkir risar séu lífvænlegir, enda líklegra að þar fyrirfinnist ekki fast yfirborð. Þessi "nýja" reikistjarna er með 2,4 sinnum meiri radíus en jörðin og því u.þ.b. 30.000 km í þvermál og ef hún er úr bergi þá er hún margfalt massameiri en okkar jörð, sem veldur því að þyngdaraflið er meira þar en hér (íbúarnir eru smáir og mjóir).
Þessi fundur er sá sem er mest spennandi af mörgum nýlegum uppgvötunum, en áður hafa fundist a.m.k. tvær jarðlíkar plánetur sem ganga um minni og kaldari sólir en okkar og eru á mörkum lífbeltisins, svipað og Venus og Mars.
Engin vafi er á því að þetta er stór áfangi í leitinni að finna tvíbura jarðar, sem er nýjasta kapphlaup geimvísindanna. Og þetta er stórt skref í þá átt að svara stærstu spurningum okkar um alheiminn. Nú hefur Kepler fundið 2326 reikistjörnur og hefur fjöldinn margfaldast á þessu ári. Af þessum eru yfir 200 á stærð við jörðina. Nú nýlega hafa fundist fjölmargar nýjar reikistjörnur á stærð við jörðina og fjöldi þeirra margfaldast á nokkrum mánuðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.