Líf í 22 ljósára fjarlægð ?

  Í sólkerfinu Gliese 667 hefur fundist reikistjarna sem er í svo hæfilegri fjarlægð frá sólu sinni að þar geti þróast líf.  Sólkerfi þetta er afar stutt frá okkur eða í 22 ljósára fjarlægð, sem er þó langt utan við það sem unnt er að ferðast til með þeirri tækni sem við þekkjum í dag.  Ferðalag að Gliese 667 með nútíma tækni tæki okkur í kringum hálfa milljón ára.

  Sólkerfi þetta er í raun þrístirni, það er í því eru þrjár sólir sem eru þó allar minni en okkar sól.  þessar sólir eru af gerðinni K3V, K5V og M1, sem þýðir að yfirborðshiti þeirra er töluvert minni en á okkar sól sem er að gerð G2V.  Þessar K sólir eru með yfirborðshita sem liggur rétt undir 5000°C en hvorug þó undir 4000°C.  M sólin er rauður dvergur með þvermál 590.000 km og aðeins 37% af massa sólarinnar og með rétt undir 3500°C yfirborðshita og því talsvert kaldari en sólin okkar.  Það hagstæða við þessar sólir er þó að þær verða miklu eldri fyrir vikið og á þar við lögmálið um að lengi lifir í gömlum glæðum, því sólir sem eru mjög heitar brenna hraðar.

  Sólkerfi þetta virkar þannig að K sólirnar (G 667A og G 667B) snúast hver um aðra í 5-13 stjarneininga (SE) fjarlægð á 42 árum, en M sólin (G 667C) snýst um hinar tvær í 56 til 215 SE fjarlægð.  Reikistjarnan sem við erum að líta til er á sporbaug um M stjörnuna (þá köldustu).  Fjarlægð M stjörnunnar frá hinum er svo mikil að hitageislun frá þeim hefur líkast til lítil áhrif á reikistjörnuna sem hefur hlotið merkinguna Gliese 667 Cc þar sem hún gengur um M sólina.

Útsýni á þessari fjarlægu jörð.
  Reikistjarnan er meira en 4 sinnum þyngri en jörðin og er bergreikistjarna.  Hún er því nógu þung til að halda gufuhvolfi og ekki of þung til að hafa of mikið af léttu frumefnunum.  Ef líf er á þessari reikistjörnu hafa íbúarnir útsýni til þriggja sóla, en K sólirnar líta þá út sem stórar gulrauðar stjörnur á himni, en móðursólin er rauð, nálæg og er meira en tvisvar sinnum stærri á himni en okkar sól og baðar jörð sína heitum geislum sínum, en ljósið sem reikistjarnan nýtur frá henni er ekki nema 10% minna en ljósið sem við fáum frá okkar sólu, en orkan er svipuð svo aðstæður geta verið hagstæðar til að vatn sé þar í fljótandi formi og hitastig svipað og hér á jörðu.

  Þetta sólkerfi, sem er staðsett í Sporðdrekanum, hefur eiginhreyfingu 1 pcsek. á ári, sem er fremur mikið miðað við margar af nálægustu stjörnum við okkur.  Hingað til hafa alls fjórar reikistjörnur fundist á lífsvæði sóla sinna og þetta er sú áhugaverðasta hingað til og sú sem er næst okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband