Sunnudagur, 2. september 2007
Fyrsta pysjan í hús
Jæja, þá er fyrsta pysjan komin í hús í haust og hún var bara nokkuð brött, 262 grömm og virtist vera vel þroskuð.
Í fyrra var lélegasta pysjuár frá upphafi, en samt fundum við þá 26 stykki, en þær voru flestar tæplega 200 grömm, flestar aldúnaðar og fóru því margar í fitun áður en þeim var sleppt. Við gáfum þeim niðurskorna loðnu og makríl í 2-3 daga þar til þær náðu 250 grömmunum og þá var þeim sleppt.
Í fyrra bar það við að við fundum töluvert af skrofu (6 stykki), en það hefur ekki gerst síðan 2001 þegar við fundum tvær.
Þetta lítur því betur út núna en í fyrra, þegar pysjutíminn var í hámarki um miðjan september, en verður trúlega aðeins fyrr núna. Aðalatriðið er þó að pysjurnar núna eru mun brattari.
Pysjan er núna í sinni einkasvítu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.