Uppskurður íslensks þjóðfélags ?

   Í umróti efnahagsþrenginga undangenginna vikna er íslenska þjóðin svolítið eins sjúklingur sem fær afar slæmar fréttir um heilsu sína.  Fræðingar hafa þannig skilgreint hvernig sjúklingurinn gengur í gegn um nokkur stig, þegar hann er smám saman að átta sig á þessum alvarlegu fréttum.

  Engin vafi leikur á því að íslensk þjóð er gjörsamlega á kúpunni eftir að íslenskir flautaþyrlar töldu sig vera þá klárustu í heimi.  Hálf íslenska þjóðin fylltist græðgisfísn á háu stigi og elti þessa gönuhlaupara um allar jarðir og fóru þar ráðamenn okkar fremstir í flokki, eins og alþjóð hefur nú víða séð á gömlum filmum sem gleymst hefur að eyða.

  Og skuldaklafanum verður velt yfir á þjóðina.  Þeir sem ekki tóku þátt í veisluhöldunum fá að greiða veislukostnaðinn.  Þannig hljóðar gamla uppskriftin um hver eigi að bera byrðarnar.

  Íslenska þjóðin er nú í heild eða að mestu leyti í einhvers konar afneitun, við upplifum óraunveruleikatilfinningu og trúum líklega ekki að við séum svona illa stödd.  Þetta hlýtur að reddast.  Það er líklega ekki fyrr en við getum ekki keypt Coko Puffsið sem við áttum okkur almennilega á þessu.

  Ég veit ekki hvenær við förum á næsta stig, sem líklega er baráttustigið, þar sem út brýst reiði og ásökun, ásamt því sem reynt verður til þrautar að semja sig út úr aðstæðunum.  Alltént erum við núna að reyna að semja við hinn eina almáttuga á þessu sviði, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

   Síst af öllu má íslenska þjóðin við því að kyngja þessu og fara í þunglyndi, þó flestir finni með sér ákveðna sektarkennd, þó ekki sé nema fyrir það að hafa dáðst eitt augnablik að dýrðinni og glasaglaumnum.

  Nauðsynlegt er að fara fljótt á úrvinnslustigið og sættast á orðinn hlut.

  Það væri í hróplegu ósamræmi við tilefnið, ef þjóðin, eða það sem eftir verður af henni þegar tugþúsundir hafa flúið skerið, mun ekki krefjast uppskurðar eða öllu heldur krufningar á öllu heila klabbinu eins og það leggur sig.  Fyrst þarf að flaka bankakerfið og setja í gamaldags pakkningar.  Ekki kæmi síðan á óvart nema menn vildu úrbeina íslenska pólitík, a.m.k. þarf að beinhreinsa þokkalega á þeim vígstöðum.  Vinavæðingu og ætternisorma þarf svo að plokka úr því sem þá stendur eftir.

  Eftir allt þetta ætti þjóðarlíkaminn að vera til reiðu fyrir næstu kynslóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband