Gróður jarðar - bók sem geymir gullkorn.

  Ég var í sumarbústað í Eyjafirði í vikunni sem leið, þar sem við vorum að fylgjast með enneinn mótinu.  Lítið var af bókum í bústaðnum, en þó var þar ein eftir Knut Hamsun, Gróður Jarðar, sem ég tók auðvitað og fór að lesa.  Það má segja að hún hafi komið skemmtilega á óvart og hafði ég mikið gaman af.

  Það vildi líka þannig til að fyrr í vor las ég mína fyrstu bók eftir Knut, Sultur, sem var nokkru tormeltari, en samt sérkennilega góð.

  Gróður Jarðar (Markens Gröde) fallar um Ísak sem fer upp á heiði og brýtur sér land til ræktunar.  Smám saman eykst hans bústofn og Ingigerður kemur og hún verður hans kona og síðar koma börnin, Eleseus, Sigvarður og tvær yngri dætur.  Fjallað er um barn sem Ingigerður elur og drepur í fæðingu og þar eru ýmis refsiréttarleg sjónarmið sem koma fram og eru bakgrunnur mildandi refsiákvæða um slíkt athæfi.  Þannig er fylgst með lífinu á heiðinni og striti þeirra hjóna.  Sagan gerist norðarlega í Noregi skammt frá landamærum Svíþjóðar, en þarna kemur líka flökkufólk, Ólína, sem verður mikill örlagavaldur og ýmsir Lappar, svo ekki sé minnst á gamla Lénsmanninn sem rekinn var úr starfi, Geissler og verður mikill vildarvinur þeirra hjóna í Landbrotum, en svo hét bærinn.  Smám saman fjölgar á heiðinni og nokkur nýbýli rísa, en mönnum gengur misjafnlega.  Breði í Breiðablikum er latur og á alltaf í basli og hinir og þessir.  Ísak stritar þó alla bókina út og skuldar aldrei neinum neitt og stöðugt stækkar hans býli og verður loks fyirrmynd annarra.  Synir Ísaks í Landbrotum eru mjög ólíkir, Eleseus er á bókina og venst letilífi í kaupstaðnum og þegar hann hefur sólundað miklu fé frá foreldrum sínum fer hann til Ameríku.  Sigvarður er eftirmynd föður síns, hörkuduglegur og tekur við í fyllingu tímans.

  Margt ber til tíðinda á löngum tíma, án þess ég tíundi það hér nákvæmlega, en seinna koma menn sem vilja fara að hefja námugröft í fjöllunum og græða peninga.  Námuvinnslan hefst og mikill peningur kemst í sveitina, en brátt hætta þeir greftrinum og allt fellur í samt horf við mikla óánægju margra, þeirra sem keyptu fjallið og þá líka Aronsen kaupmanns, sem ætlaði að græða á auknum viðskiptum og finnst hann illa svikinn.

  Í lok bókarinnar eiga þeir tal saman Sigvarður og Geissler, gamli Lénsmaðurinn.  Geissler er svona áhorfandi og þó mesti áhrifavaldur í sveitinni og kennir unga manninum lífsreglurnar og segir : "Það eru ekki peningar sem landið þarf, landið hefur meira en nóg af peningum, það eru menn eins og Ísak, faðir þinn sem ekki er nóg af, það þarf 32 þúsund slíka menn í landið, ég hef reiknað það út."

  Hann bætir við um stórgróðamennina sem ætluðu að græða fljótt á námugreftrinum : "Menn gera tækið að takmarki og stæra sig af, þeir þekkja ekki plóginn, þeir þekkja ekki nema teninginn. En þeir eru ekki þarflegir, brenna þeir ekki upp sjálfa sig í æði sínu ?  Líttu á þá, þeir leggja allt í hættu !  Það er bara að þetta hættuspil er ekki ofurhugur, það er ekki einu sinni hugrekki, það er skelfing.  Veistu hvað er hættuspil ?  Það er angistin með sveitt enni.  Glapræðið er að þeir vilja ekki verða lífinu samferða, þeir vilja komast hraðar en það.  Þeir reka sig eins og fleygar inn í lífið, svo síga hliðarnar að þeim og lífið mylur þá hægversklega en hiklaust.  Svo byrja klögumálin yfir lífinu, heiftin gegn lífinu."

  Gæti ekki átt betur við enn í dag, næstum öld seinna.

  Um fólkið í Landbroti sagði Geissler : "Frá kynslóð til kynslóðar eruð þið til og þegar þið deyjið tekur hinn nýji gróður við.  Það er þetta sem átt er við með eilífu lífi."

  Ég mæli eindregið með bókinni.  Svo verð ég að fara að skrifa um aðrar bækur sem ég hef lesið nýlega, bækur eins og Sultur, Lesarinn og nokkrar aðrar sem ég hef gleymt í augnablikinu.

Stjörnur: ***** 

5 * : Stórkostlegt - Verður ekki betra.
4 * : Frábær bók - alls ekki missa af henni.
3 * : Góð bók / athyglisverð - Tímans virði.
2 * : Allt í lagi - ágætis afþreying ef annað er ekki á dagskrá.
1 * : Slöpp bók - Leiddist lesturinn.
0 * : Eitt það versta sem ég hef lesið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband