Föstudagur, 14. desember 2012
Loftsteinadrífa á himni í gær.
Í gærkvöldi hittumst við félagar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja til að líta eftir loftsteinadrífunni Geminídum sem voru í hámarki þá. Það er óhætt að segja að vel hafi verið mætt og margir entust lengi þó mjög hvasst hafi verið og kalt.
Um 30 félagar og gestir mættu á útsýnispallinn kl. 22 í gærkvöldi og nutu útsýnisins en ágæt skilyrði voru til skoðunar. Allir sáu stjörnuhröp og líklega hef ég séð um 30-40 á þeim 40 mínútum sem ég var þarna og missti þó af fjölmörgum sem aðrir sáu. Við sáum a.m.k. tvö hröp sem voru með "reykhala" og nokkur ansi björt og löng. Langflest stefndu úr geislapunkti Geminítanna við stjörnuna Kastor, en síðan kom eitt sem fór í öfuga átt og mér varð að orði að þarna hafi komið eitt öfugt og menn spurðu mig hvort það hefði stefnt upp á við. Það virtist vera sama í hvaða átt maður horfði, alls staðar sáust hröp, austur, suður, norður og vestur. En sem sagt upplifunin var mjög ánægjuleg og held ég að flestir hafi verið undrandi á hversu öflug drífan var.
Um kl. 23:30 fór ég aftur og hafði þá bætt við farþegum í bílinn og sama sagan endurtók sig, við sáum fullt af flottum hröpum. Þá lögðumst við í grasið og það var mun betra en að standa og glápa upp í loftið með tilheyrandi hálsríg, enda erfitt að standa í rokinu. Þá sér maður líka mun stærra svæði á himni.
Almennt er talað um að þessi loftsteinadrífa standi frá 4 - 17. desember ár hvert svo enn er unnt að ná í skottið á henni. Tungl var nýtt í gærköldi, 13. desember svo það truflar ekki útsýni til stjarna þessi kvöld. Geminídar sjást koma úr stjörnumerkinu Tvíburunum sem er á suðausturhimni fyrir miðnætti á þessum árstíma.
Þessir loftsteinar sýnast koma með stefnu úr stjörnumerkinu Tvíburunum, drífan sýnist koma með stefnu rétt við stjörnuna Kastor. Loftsteinadrífan er leifar frá slóð óvirku halastjörnunnar eða smástirninu 3200 Phaeton.
Athugasemdir
Alheimurinn hefur oft komið manni í þvílíka flækju,hversu langt nær þetta, hvar er ekki neitt. Nei Gauti minn ég reyni ekki oftar,en les stuttar greinar um fundi stjarna og það sem vísindin uppgötva. En himininn er yndislegur að horfa á.
Helga Kristjánsdóttir, 16.12.2012 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.