20 til 30 þúsund manns á þjóðhátíð 2010 ?

  Um síðustu helgi var haldin stærsta þjóðhátíð frá upphafi og hefur heyrst að á hátíðinni hafi verið 13.000 manns með heimafólki.  Varla hafa gestir verið svo margir, þar sem flutningsgetan var varla næg til að skila þeim fjölda inn í dalinn.  En þrátt fyrir það var þessi hátíð mun stærri en venjulega og fannst verulega fyrir því í dalnum þessa daga.  Stundum hurfu heimamenn í mannhafið og þá var eins og maður væri staddur á venjulegri hátíð uppi á landi.
  Þrátt fyrir smávegis rigningarúða breyttust göngustígar alltof fljótt í drullusvað strax að morgni sunnudags.  Hluti brekkunnar varð þá að leðjurennibraut og setti um kvöldið "dökkan blett" á útlit landsins stærsta brekkukórs.
  Margt annað var á mörkum þess að sleppa fyrir horn vegna þessa mikla gestafölda.
  Þess vegna get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvernig verður þetta samkomuhald með tilkomu ferjusiglinga í Landeyjahöfn 2010.  Þá mun flutningsgetan margfaldast og líklega gæti sú ferja auðveldlega flutt 5-7 þúsund manns á sólarhring til Eyja og á þremur dögum gera það 15-20 þúsund manns auk heimamanna, svo ekki sé talað um flugið sem gæti bætt ofan á þá tölu a.m.k. úr Reykjavík.
  Hvernig er dalurinn í stakk búinn til að taka við þeim fjölda ?
  Hvernig ber að auka viðbúnað hátíðahaldara til þess að unnt sé að bjóða öllum þessum fjölda til góðs og öruggs skemmtanahalds ?
  Er bærinn og t.a.m. vegakerfið hér tilbúið að taka e.t.v. við öllum þeim ökutækjum sem fylgt gætu þessum gestum ?
  Þarf yfirleitt að grípa til einhverra ráðstafana, mun þetta ekki bara bjargast að sjálfu sér ? 
  Ég held að best sé að huga að þessum margháttuðu breytingum strax í tíma, en ekki bíða og sjá hvað verða vill.
  Þörf er á að allir hlutaðeigandi aðilar leyti leiða til þess að undirbúa mun stærri þjóðhátíðir en hingað til hafa þekkst hér, ef menn á annað borð vilja leitast við að viðhalda sömu "stemningu" og hingað til.
  Ella er viðbúið að hátíðin breytist í svokallaða "venjulega útihátíð" þar sem heimamenn verða í aukahlutverki vegna mikils fjölda annara gesta sem yfirgnæfa skemmtanahald Eyjamanna.
  Brýn þörf er á að bæta allan aðbúnað í dalnum og nágrenni með stórátaki og gæti ég nefnt fjöldamörg atriði í því sambandi, t.d. varanlegt og endurbætt svið, betrumbæta brekkuna, gera varanlega göngustíga, bæta við tjaldstæðum, laga enn frekar aðkomu að dalnum, fyrirbyggja endanlega grjóthrun niður í brekkuna og margt fleira.  Þá er ekki nefnd fjölmörg önnur atriði.
  Þá er það e.t.v. aðalatriðið, sem er að setja fjöldatakmark á hátíðina, eins og þekkist víða erlendis, þ.e. að seldir eru ákveðinn fjöldi miða, t.d. 15.000 og þá sé einfaldlega uppselt.  Þetta væri leið til þess að bjarga hátíðinni eins og hún er í dag frá því að verða "Ein venjuleg útihátíð" auk þess sem slíkar fjöldatakmarkanir gætu í eðli sínu verið nauðsynlegar vegna öryggissjónarmiða.
  Við höfum tvö ár til þess að undirbúa okkur.
 Brekkublysin að kvöldi sunnudagsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Heill og sæll! Þetta eru orð í tíma töluð ,og verður örugglega tekið á því.Eyjamenn eru vanir að skipuleggja gestakomur sbr.knattspyrnukeppnir unga fólksins.  Vildi endilega senda þér álit þar sem við þekkjumst svo vel.   p.s. ætla á næstu þj.hátíð ég er alltaf á öðrum tíma hjá systur minni og hennar afkomendum  verð að upplifa brekkusöng,syngja með alþýðunni. Bestu kveðjur úr Kópav.

Helga Kristjánsdóttir, 8.8.2008 kl. 01:49

2 Smámynd: Tryggvi Hjaltason

Ofsalega góðar pælingar hjá þér og ég tek undir hana Helgu að þetta eru orð í tíma töluð.

"Ella er viðbúið að hátíðin breytist í svokallaða "venjulega útihátíð" þar sem heimamenn verða í aukahlutverki vegna mikils fjölda annara gesta sem yfirgnæfa skemmtanahald Eyjamanna."

Þetta er virkilega góður punktur og þarna held ég að þú hittir naglan á höfuðið og ég er þér fyllilega sammála að þetta má ekki gerast og eru þess vegna hugmyndir um fjöldatakmarkanir eða eitthvað þvíumlíkt ekki svo vitlausar.

Tryggvi Hjaltason, 11.8.2008 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband