Föstudagur, 16. október 2009
Sandgreifarnir eru stórgóð lesning.
Las fyrir nokkru síðan Sandgreifana eftir Björn Th. Björnsson, en hafði nokkrum sinnum verið að grennslast eftir þessari bók, þar sem ég vissi að hún hafði að geyma bernskusögur höfundar úr Vestmannaeyjum. Og í vor náði ég henni loksins á fornbókaverslun og sá ekki eftir því.
Ég skemmti mér stórvel yfir bráðskemmtilegri og fyndinni bók. Skellti oft upp úr við lesturinn og frásagnarlist Björns er hreint stórkostleg, sérstaklega hvernig hann nær talsmáta strákana þannig að maður finnst maður hreinlega heyra í peyjunum. Skyldulesning fyrir áhugamenn um Eyjarnar. Atburðir gerast fyrir stríð á árunum í kringum 1935-6. Grípum niður í það þegar strákarnir eru að leita að nafni á fótboltafélagið sitt :
> En félag er ekki félag nema það heiti eitthvað. Eitthvað glæsilegt. - Heimaklettur! - Ertuorðinn vittlaus! Heimaklettur fótboltafélag!- En fugl? - Jahá! Fugl! En ekki neitt af þessum hénna venjulegu! Ekki Lundinn! Allir fóru að skellihlæja. - Súlan? - Þeir eru alltaf að drepana. Og so er hún alltaf a stinga sér. - Örninn! - Þar helvítis ránfugl. Tók barn í Reykjavík. Þa stóð í blöðunum. Þa eiga allir að drepann sem geta. En um það bil sem náttúrufræðin var að verða upp urin, fær einhver hugmynd; og þó ekki. Svoleiðis var, að mamma geymdi matvöru á efra miðstöðvargólfinu, kassa og poka með sykri, rúgi og hveiti og svoleiðis, og fremst í staflanum blasti einmitt við okkur hvítur hveitipoki með blárri fuglsmynd og stórum stöfum í boga fyrir ofan og neðan: SWAN WHEAT. - Kver er stærstur og fallegastur af öllum fuglum? spurði sá með uppljómunina. Þótt það væri einmitt sá fugl sem við höfðum aldrei á ævinni séð, nema kannski þeir sem verið höfðu í sveit þá lauk nú allur hópurinn upp einum munni: Álftin! Hér þurfti því ekki frekari umræðna við, og þennan vordag í miðstöðinni í Drífanda var fótboltafélagið Álftin stofnað <
Bókin fjallar um stráka í Eyjum, sem eru að fá hvolpavitið og ýmislegt kemur þeim undarlega fyrir sjónir og heimurinn er ekki eins og hann sýnist. Frábær lesning.
Verð að gefa bókinni með hæstu einkunnum, þó ég sé e.t.v. kannski hlutdrægur þar sem ég er líka að lesa bókina til þess að kynnast Eyjunum fyrr á tímum.
Bókin er gefin út 1989 um 160 bls.
Stjörnur: ****
5 * : Stórkostlegt - Verður ekki betra.
4 * : Frábær bók - alls ekki missa af henni.
3 * : Góð bók / athyglisverð - Tímans virði.
2 * : Allt í lagi - ágætis afþreying ef annað er ekki á dagskrá.
1 * : Slöpp bók - Leiddist lesturinn.
0 * : Eitt það versta sem ég hef lesið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.