Hungrað barn í sælgætisbúð.

  Dag eftir dag eru haldnir fjölmennir borgarafundir í Reykjavík og getur það ekki verið nema til góðs eins.  Athyglisvert verður að fylgjast með því hvað kemur út úr þessari ólgu.  Ef allt verður óbreytt væri það sorgleg niðurstaða fyrir íslenskt samfélag.
  Vonandi er þetta byrjunin á að hinni miklu spillingu sem gegnsýrt hefur íslenska kerfið um árabil verði úthýst.
  Fremstir í flokki fóru útrásarvíkingarnir svokölluðu sem margir voru kornungir nýútskrifaðir bankastrákar sem lærðu klíkuskapinn af vinum sínum úr hópi brautryðjenda hinnar nýju stéttar auðmanna.  Allir voru þeir studdir dágóðum fordæmum um framgöngu gamalla forvera sinna, sem margir hverjir námu fræðin í sjálfum Háskóla stjórnmálaskóla Íslands.  Gengu þessar nýju "hetjur" þó miklu harðar fram í að auðgast á hrottalega ófyrirleitinn og skjótan máta og hirtu ekki um neinar afleiðingar, tilgangurinn var að fylla eigin vasa, svona svipað og hungrað barn í sælgætisbúð.
  Öllum þessum mönnum fylgdi herskari fyrirmanna og stjórnmálamanna allt upp þá allra æðstu, sem skáluðu og húrruðu svo undir tók í fjöllunum.  Sumir þeirra jafnvel læddust til að krækja sér í mola sem skroppið hafði af allsnægtarborðinu.
  Engin þurfti að hafa áhyggjur af því að upp um klíkuna kæmist, því fjölmiðlarnir voru á launum hjá þeim líka.
  Reyndar er mjög furðulegt að við höfum skorað svo hátt í erlendum könnunum um litla spillingu.  Þær kannanir hafa líklega ekki mælt öfluga klíkuvæðingu íslensks viðskipta- og stjórnmálalífs eða frændsemistengsl sem viðgangast um allt kerfið.  Þessi birtingarmynd spillingar hefur ágerst undanfarin ár hér á landi og má sjá klúr dæmi þess að þeir sem eru í innsta hring hafa varla haft samskipti við aðra en klíkuna og eru hreinlega forviða ef önnur skoðun "en hin eina rétta" berst í þeirra eintóna eyru.
  Hver er árangur þessara funda ?  Fundarmenn voru a.m.k. ekki kallaður skríll.

mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hófdrykkjumenn ?

Tálsýn drykkjumannsins.
  Íslendingar eru eins og áfengissjúklingar sem þyrstir í útlenda peninga sem þeir fá ekki.  Skuldheimtumenn í útlöndum sjá þetta og setja okkur skilyrði sem við göngum að fyrir rest til að fá sopann okkar.
  Væri ekki betra að ganga alla leið og hætta að drekka og taka strax út kalda svitann og martraðirnar ?
  Nei, ég er ansi hræddur um að menn hafi valið léttu leiðina út úr þessu !  Það er betra að halda áfram að vera með í partíinu um stund og þykjast vera hófdrykkjumenn, almenningur borgar brúsann !
Hvað skuldum við mikla peninga ?
  Mörgum gengur illa að átta sig á því hversu illa er komið fyrir íslenskri þjóð.  Við tökum á okkur nýtt 600 milljarða lán.  Og líklega þurfum við meira en það.  Hvað er það mikið ?
  Svona til að minna á hve mikið það er þá er ekki langt síðan Síminn var seldur fyrir 67 milljarða.
  Hvaða tilfinning greip um sig ?
  = Það var ekki sú stofnun sem ekki átti að fá aukið fé, það var ekki það málefni sem ekki átti að fá nýja stofnun, það var ekki það Sund sem ekki átti að fá nýja braut, það var ekki sá fjörður sem ekki átti að fá brú og það var ekki það fjall sem ekki átti að bora undir.
  Svo miklir voru peningarnir.
  Nú erum við að skrifa undir 9 sinnum hærri upphæð sem við skuldum vegna útrásarsnillinga sem völsuðu um án eftirlits - Eftirlits þeirra sem áttu að hafa hag þjóðarinnar í heiðri.

Viltu greiða af nýju 8 milljón króna láni ?
  Er einhver enn í vafa um stöðu okkar ? 
  Þetta eru litlar 2 milljónir á mann eða 8 millj. á hverja venjulega fjölskyldu.
  Viltu greiða af nýju 8 millj. króna láni núna ?
  Og þetta er lán sem þú baðst ekki um og fékkst ekki afhent.
  Hvað gerir þú við þann sem skellir þessu á þig að þér forspurðum ?
  Endurráða manninn strax, er það ekki ?
Hver er greiðslubyrðin ?  Og hver eru skilyrðin ?  Nei, þú færð ekki að vita það strax því það er svo mikið trúnaðarmál !
  Og menn hneykslast á sögum um maðkað mjöl sem prangað var inn á bláfátækan landslýð í einokuninni fyrr á öldum.
  Og hverjir segjast vera að koma okkur út úr ógöngunum ?
  Ég segi eins og Ólafur Ragnar í Dagvaktinni : "Já, SÆLL"

mbl.is Icesave-deilan leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórn er skynsamleg

  Engin vafi er á því að staða Íslands á alþjóðavettvangi er grafalvarleg.  Við fáum hvergi nein lán, nema við beygjum okkur undir kröfur breta og fleiri þjóða vegna Icesave reikninganna.
  Miðað við fréttir er komin upp pattstaða sem við erum föst í.
  Það eru engin fordæmi fyrir þvílíku ástandi hér á landi á lýðveldistímanum.
  Líkur og útlit fyrir mikilli kreppu hér á landi aukast með degi hverjum.
  Órói eykst í þjóðfélaginu.
  Stjórnarandstöðunni vex ásmegin.  Engin víkur af þeim sem sátu við kjötkatlana á meðan á góðærinu stóð.
  Þó er alls ekki unnt að ganga til kosninga næstu vikur eða í vetur yfirleitt á meðan á orrahríðinni stendur.  Hvað er þá til ráða ?
  Ég tel að ráðamenn eigi að ræða við stjórnarandstöðuna og helstu sérfræðinga í viðskiptalífinu og annars staðar sem góða menn er að finna og mynda þjóðstjórn úr hæfustu mönnunum í sátt við fólkið í landinu.  Mikilvægt er þó að sem flestir þessarra manna og kvenna séu sem minnst tengd óráðsíðufólkinu sem leiddu okkur inn í þessa skelfingu.  Hlutverk þessarar stjórnar yrði að róa í gegnum stærstu öldurnar og efna svo til kosninga.
  Af hverju :  Það verður og er ekki auðvelt fyrir ráðamenn að stjórna skútunni sómasamlega ef ólgan vex í landinu eins og hún virðist ætla að gera.  Þeir hafa nóg með að ræða við erlenda lánadrottna, ríki og innistæðueigendur og einbeita sér að því að ná sem hagstæðustu samningum við þessa aðila þó þeir þurfi ekki einnig að berjast við innlenda andstæðinga.
  Nú er þörf á samstöðu en ekki sundrungu.

mbl.is Staðan er grafalvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjir ræðarar.

  Ég fylgdist með fréttum í kvöld og sá svo Silfrið.
  Á ummælum flestra mátti heyra að íslenska kerfið sé komið að endalokum síns tíma.
  Þessi ætterniskapitalisti og vinavæðingarárátta hér hlýtur að fara undir fallöxina, nema við viljum endurtaka sukkið enn á ný.  Ég held reyndar að fáir vilji kjósi það eftir þetta allsherjarklúður.
  Engin vafi er á því að þetta er rétt.  Þeir sem hafa farið með stjórnina hér síðustu áratugina hafa yfirhöfuð haft eigin hag eða a.m.k. hag sinna nánustu eða vina að leiðarljósi en ekki þjóðarhag við verk sín.
  Hvernig getum við breytt þessu fyrirkomulagi ?
  Einhver sagði að allir væru svo tengdir að þetta væri ekki nokkur leið í okkar litla landi.
  Aðrir hafa sagt að þessir sömu væru svo hrikalega tengdir sínum hópi að þeir sæu ekki út fyrir hann og má það til sanns vegar færa.
  Ég tel að hér sé nóg af kröftugu og hæfileikaríku fólki sem gæti tekið þétt um árarnar ef klíkan yrði frá að hverfa.

Hvað gerir gjaldþrota þjóð ?

  Ef einhverntíma hefur verið þörf á því að þessi þjóð sparaði svolítið við sig þá er það núna, þegar hún er nánast veðsett upp fyrir haus og snillingar þjóðarinnar einbeita sér að því að slá lán um allar koppagrundir.  Ég efast ekkert um að það kunna þeir, enda hefur það komið í ljós að það var eitt af því sem kom okkur á kaldan klaka.

  Gott og vel, það getur verið nauðsynlegt að bjarga þjóðinni út úr þessari gjaldeyriskreppu með lánum, sem munu sliga okkur á næstu árum ef ekki áratugum.  En hvað gera menn sem eru skuldsettir upp fyrir haus ?  Það hefur þótt góð latína fyrir svoleiðis fólk að draga saman seglin og reyna að rétta úr kútnum sem allra fyrst.  Almenningur neyðist til þess.  En eru ráðamenn byrjaðir á að spara ?  Jú, þeir hafa hætt við nokkrar framkvæmdir, t.d. Vaðlaheiðargöng og smíði á nýrri ferju til Vestmannaeyja (eins og fólkið þar hafi bruðlað mest!)

  Fólkið, sem flest á enga sök á hvernig komið er fyrir þjóðinni er nógu gott til að taka á sig byrðarnar ?  Og er tilbúið til þess, en er þá ekki bara almenn kurteisi að fleiri skelli á sig byrðum ?

  Ég heyri ekki betur en að glerminnisvarðar uppgangstímans haldi áfram að rísa í Reykjavík (t.d. Tónlistarhús).  Og ráðamenn aka áfram um í rándýrum glæsivögnum.  Ekki einn einasti maður hefur staðið upp úr stól sínum vegna þjóðargjaldþrots okkar !  Blóð þjóðarinnar frís undan ægiskilyrðum IMF sem er hvorki spurð né upplýst um þessi skilyrði !  Svo töluðu menn um þjóðaratkvæði við inngönguna í EES !  Hvort er alvarlegra fyrir þjóðina, þetta sem nú hefur gerst eða þá ?  Hvað er í gangi ?  Er þjóðin jafn andlega gjaldþrota og við erum það efnislega ?


mbl.is Þekkt lögmannsstofa vinnur fyrir Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtileg umskipti.

 Það hafa orðið skemmtileg umskipti á fréttaflutningi fjölmiðla að undanförnu.  Þá á ég ekki við þessar sífelldu fréttir af bankakreppunni heldur fréttir af atvinnulífinu.  Atvinnulífið er reyndar víða á heljarþröm, en þar er ég ekki að meina slíkar fréttir, heldur hafa fjölmiðlar allt í einu vaknað við að það séu fleiri fréttir af atvinnulífi en verðbréfafréttir.

  Undanfarin ár hafa fjölmiðlar ekki haft minnsta áhuga á að flytja fréttir af sjávarútvegi eða landbúnaði heldur mært verðbréfaviðskipti með endalausum pistlum um þann geira atvinnulífsins.  - Þar eru hlutirnir að gerast og þar verða peningarnir til.  Seðlarnir hreinlega streymdu út úr tölvuskjánum á fimmtu hæðum glerhallanna, svo ekki hafðist undan að setja þá í þokkalegar geymslur.  Ef einhver orðaði kjöt eða fisk þá var hinn sami talin hálfviti "hafa menn ekki lært það enn að við lifum ekki á þessu gamaldags striti".  Það eru bara hálfvitar sem leggja sig niður við að moka fisk eða reka rollur.

  Enda fékkst varla nokkur maður, nema bláfátækir Pólverjar, til að vinna þessa sóðalegu vinnu.  Af þessu var ekkert markvert að frétta.  Íslendingar voru önnum kafnir við að græða og þess á milli voru þeir að kaupa sér dót.

  Nú ber nýrra við og maður glennti upp augun þegar í síðustu viku birtist frétt í sjónvarpinu um síldveiðar við Stykkishólm.  Fréttin var örugglega 2-3 mínútur og þar var því rækilega lýst fyrir fáfróðum landanum hvernig síldin synti um í sjónum þar til snjallir veiðimenn veiddu hana í net sín og viti menn, þarna sáum við þetta með eigin augum þar sem þeir soguðu síldina upp í skipið og hún rann ljúflega niður rennurnar og duglegu sjómennirnir unnu hörðum höndum við það að ná sem mestu af þessum kvikindum, sem engin hafði áttað sig á að var bara þarna til þess að láta veiða sig.  Og síðan kom rúsínan í pylsuendandum; við gætum selt síldina og fengið gjaldeyri í staðinn.  Vá, þetta var stórkostlegt !  Líklega hafa sumir gjaldeyrissoltnir íslendingar hreinlega fallið í yfirlið við þetta útslag í fréttinni.  Loksins var lausnin fundin !  Þetta er eins og maður finni vatn í eyðimörk, það hríslast gleðitilfinning um allan kroppinn.

  Og fleiri slíkar fréttir hafa komið í blöðum á undanförnum dögum.  Íslendingar hafa fundið upp nýjan atvinnuveg sem heitir fiskveiðar, sem allir voru búnir að gleyma.

  Þetta eru skemmtileg umskipti.


mbl.is Ljónstygg síld á erfiðu veiðisvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskurður íslensks þjóðfélags ?

   Í umróti efnahagsþrenginga undangenginna vikna er íslenska þjóðin svolítið eins sjúklingur sem fær afar slæmar fréttir um heilsu sína.  Fræðingar hafa þannig skilgreint hvernig sjúklingurinn gengur í gegn um nokkur stig, þegar hann er smám saman að átta sig á þessum alvarlegu fréttum.

  Engin vafi leikur á því að íslensk þjóð er gjörsamlega á kúpunni eftir að íslenskir flautaþyrlar töldu sig vera þá klárustu í heimi.  Hálf íslenska þjóðin fylltist græðgisfísn á háu stigi og elti þessa gönuhlaupara um allar jarðir og fóru þar ráðamenn okkar fremstir í flokki, eins og alþjóð hefur nú víða séð á gömlum filmum sem gleymst hefur að eyða.

  Og skuldaklafanum verður velt yfir á þjóðina.  Þeir sem ekki tóku þátt í veisluhöldunum fá að greiða veislukostnaðinn.  Þannig hljóðar gamla uppskriftin um hver eigi að bera byrðarnar.

  Íslenska þjóðin er nú í heild eða að mestu leyti í einhvers konar afneitun, við upplifum óraunveruleikatilfinningu og trúum líklega ekki að við séum svona illa stödd.  Þetta hlýtur að reddast.  Það er líklega ekki fyrr en við getum ekki keypt Coko Puffsið sem við áttum okkur almennilega á þessu.

  Ég veit ekki hvenær við förum á næsta stig, sem líklega er baráttustigið, þar sem út brýst reiði og ásökun, ásamt því sem reynt verður til þrautar að semja sig út úr aðstæðunum.  Alltént erum við núna að reyna að semja við hinn eina almáttuga á þessu sviði, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

   Síst af öllu má íslenska þjóðin við því að kyngja þessu og fara í þunglyndi, þó flestir finni með sér ákveðna sektarkennd, þó ekki sé nema fyrir það að hafa dáðst eitt augnablik að dýrðinni og glasaglaumnum.

  Nauðsynlegt er að fara fljótt á úrvinnslustigið og sættast á orðinn hlut.

  Það væri í hróplegu ósamræmi við tilefnið, ef þjóðin, eða það sem eftir verður af henni þegar tugþúsundir hafa flúið skerið, mun ekki krefjast uppskurðar eða öllu heldur krufningar á öllu heila klabbinu eins og það leggur sig.  Fyrst þarf að flaka bankakerfið og setja í gamaldags pakkningar.  Ekki kæmi síðan á óvart nema menn vildu úrbeina íslenska pólitík, a.m.k. þarf að beinhreinsa þokkalega á þeim vígstöðum.  Vinavæðingu og ætternisorma þarf svo að plokka úr því sem þá stendur eftir.

  Eftir allt þetta ætti þjóðarlíkaminn að vera til reiðu fyrir næstu kynslóð.


Þáttur fjölmiðla.

  Margir hafa risið upp að undanförnu og sagt "I told you so".  Ef svona margir hafa verið að vara íslenska þjóð við síðustu misserin þá leiðir það hugann að því hvers vegna þeir náðu ekki eyrum og augum okkar ?

  Höfðu fjölmiðlar ekki nægilegan áhuga á þessum viðvörunum eða hentaði það þeim ekki ?  Eru ekki sömu menn sem eiga þessi útrásarfyrirtæki og eiga marga af áhrifamestu fjölmiðlum landsins.

  Var það ekki þetta sem fjölmiðlalögin áttu að koma í veg fyrir ?


mbl.is Tímaspursmál hvenær leitað verður til IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur verið mjög nauðsynlegt.

  Það getur oft verið nauðsynleg varúðarráðstöfun að "frysta" eigur í þrotabúi með skjótum aðgerðum, þetta eru bretar að gera.  Í því samhengi er vert að velta því fyrir sér með hvaða hætti við erum að gera þetta hérlendis?

  Það hefur komið fyrir að menn hafi hlaupið út úr þrotabúum með reiturnar svona korter í tólf, en í dag er þetta allt saman auðveldara, það þarf stundum ekki nema eitt ENTER.  Þess vegna þurfa viðbrögðin að vera skjót.

  Með þessu er ekki verið að segja að eitthvað gruggugt sé í gangi, þetta er eðlileg varúðarráðstöfun og ætti að vera það hérlendis líka.


mbl.is Ekki bara hryðjuverkalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferð með skipinu St. Ola.

  Skákliðið fór með St. Ola til Eyja í kvöld eftir deildakeppnina í skák.  Hluti liðsins hafði ætlað að fljúga frá Bakkaflugvelli, en vegna veðurs var það ekki hægt.  Það er reyndar skrítið hve oft við erum í vandræðum með veður og ferðir eftir deildakeppnina, því síðast þegar við komum til Eyja í mars s.l. eftir seinni hlutann þá hafði snjó kyngt svo hrikalega niður í Eyjum að nánast var ófært milli húsa hér í Vestmannaeyjum.
  Ferðin núna var mörgum erfið, skipið lagði ekki úr höfn fyrr en klukkan var langt gengin í níu og veðrið á leiðinni var vont og margir sjóveikir.  Þá tafðist ferðin vegna veðurs og við vorum ekki komin í land í Eyjum fyrr en 00:45, en alla jafna leggst skipið að bryggju kl. 22:15.
  St. Ola er skipið sem nú er í ferðum í stað Herjólfs, sem er í slipp.  Maður heyrir á fólki að þetta sé betra skip en Herjólfur, betri stólar og rúmbetra á margan hátt.  Það er furðulegt að hlusta á þetta með tilliti til þess að St. Ola er smíðað skömmu eftir 1970.
  Til þess að komast um borð þarf að ganga utandyra um akstursleið inn í skipið af bryggjunni.  Þetta gilti um alla farþega, smábörn sem gamalmenni !
  Mikið finnst mér fólk hér í Vestmannaeyjum vera nægjusamt.  Hér hefur ekki verið bruðlað hægri vinstri, það er auðsjáanlegt.  Ég held að margir myndu ekki stíga fæti á þessi skip, enda koma þessir svokölluðu ráðamenn ekki til Eyja, nema flugfært sé.
  Þetta leiðir hins vegar hugann að bankakreppunni og hennar raunverulegu orsökum, það væri ömurleg (og óásættanleg) niðurstaða ef venjulegt fólk, sem í engu hefur bruðlað, verði látið á einhvern hátt, borga brúsann fyrir óráðsíu og frammúrkeyrslu meðal bankamanna og "útrásarvíkinganna" hér í landinu.  Sem hafa haft græðgina eina að leiðarljósi og þá aðallega til að fylla í eigin vasa.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband