Fílabeinsturn fáránleikans.

  "Ekki meir, ekki meir !"  Svo virðist sem stjórnmálamenn séu loksins að vakna af þyrnirósarsvefninum og farnir að átta sig á að svona bruðl heyrir sögunni til.

  Hús, sem átti að kosta 6 milljarða árið 2002 er skv. nýjustu útreikningum komið í yfir 25 milljarða !  Og enn vilja menn halda áfram með þennan óskapnað góðærisruglsins !

  Og reikningskúnstirnar um rekstrartekjur þess á ári, hvernig líta þær út :

  Framlag ríkis og borgar ... 808.000.000
  Leiga frá Sinfóníunni ....... 101.000.000
  Salir og fundaherbergi .... 229.000.000
  Veitingarými ................... 140.000.000
  Aukin afstaða ................. 190.000.000
  Bílastæði ........................    63.000.000
  Aðrar tekjur ...................  121.000.000

  Semsagt halli upp á 50 % og hluti af hinum tekjunum koma beint frá ríki eða borg svo hallinn er í raun talsvert meiri.   Athugið þó þessar tölur vel.  Hvaða lærdóm má draga af þeim ?  Hreinlega draumsýn úr fílabeinsturnum fáránleikans.  Þetta eru svona dæmigerðar tölur þar sem menn eru að reikna sig niður að núlli.  Og hvaðan kemur hvelftin af peningum í reksturinn ?  Frá ríki og bæ.  Ætla menn virkilega að taka þessa endaleysu að sér til langframa ?

  Nú þegar þarf að spara í öllum hornum, sjúkrahúsum, elliheimilium og á geðsjúkum þá er þetta verkefni það mikilvægasta.  Er Salurinn í Kópavogi bara ekki full nógu góður enn um sinn ?

  Og hver eru rekstrargjöldin á ári ?

  Stjórnun og skrifstofa ........ 176.000.000
  Markaðskostnaður .............   20.000.000
  Lausráðið starfsfólk ........... 114.000.000
  Starfslið á tónleikum ..........   72.000.000
  Fasteignagjöld .................. 147.000.000
  Viðhald .............................. 111.000.000
  Orka, sorp, gæsla, ræsting    80.000.000
  Tryggingar og bílastæði ....    71.000.000
  Afborganir og vextir .........  860.000.000

  Ætla menn sem sagt að binda sig í vaxtaklafa næstu áratugi ?  Og starfsfólkið, það er sem sagt reiknað með 40-70 manns þarna í vinnu og fleiri þess fyrir utan.  Og vextir og afborganir dekka fjórum sinnum hærri tölu.  Það er greinilegt að þetta var allt saman reiknað út fyrir hrunið með þeirri blindu sem menn nvoru þá haldnir.  Og hvað með samkeppnissjónarmiðin, hvað segja þeir sem eru að reka sali á þessu sviði ?

  Ríkisstjórnin segir að spara þurfi 170 milljarða á næstu 3 árum og öllum finnst mikið til koma, en þarna er bara 10% af þeirri tölu í tóma vitleysu.

  Nei, ég legg til, enn og aftur, hættið þessari vitleysu og vaknið.


mbl.is Vill að áform um tónlistarhús verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur oft gerst áður úti á landi !

  Það er svolítið einkennilegt að lesa þessar tillögur um að nauðsynlegt sé að skera niður húsnæðisskuldir um 20% þar sem fólk sé að missa húsin sín.  Ég heyrði þó um daginn athyglisvert sjónarmið - Þetta hefur nefnilega oft gerst áður án þess að ráðamenn hafi farið á límingunum.

  Það hefur verið að gerast á umliðnum árum og áratugum að atvinna fólks í litlum sjávarbyggðum og í sveitum hefur horfið og þetta fólk hefur þurft að leita annað til að fá atvinnu.  Húsnæði þess hefur þá orðið verðlaust í stórum stíl, en það hefur þurft að bíta í það súra epli og tapað nánast aleigunni.

  Þá var viðkvæðið oft : "Þér var nær að búa á þessu fja .. krummaskuði"

  Hvað er svona ólíkt með þessum tveimur dæmum ?  Er einhver ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta 

http://einsiboy.blogcentral.is/AlbumImage.ashx?id=886013


mbl.is Hafnar flatri niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly sagði það allt !

  Ég var að horfa á Evu Joly  (rannsóknardómara) í endursýningu Silfursins áðan og í stuttu máli sagði hún þetta allt saman.

  Það ætti í raun að endursýna þáttinn daglega næstu vikuna svo fólk skilji við hvað er að eiga þegar verið er að ræða að ná lögum yfir sökudólga íslenska bankahrunsins og láta þá svara til saka.  Hún lýsti  nákvæmlega þeim veruleika sem blasir við.

  Hún ræddi um þá gífurlegu vinnu sem bíður rannsóknaraðila - og þar mega ekki verða nein vettlingatök og mannskap má ekki skera við nögl.  Þjóðin verður að fá réttlæti og sannleikann upp á borðið eins fljótt og unnt er.

  Baugsmálið er sá vegvísir sem verður að forðast.  Það mál fór nákvæmlega eins og Eva sagði að hætt væri við.  Og hún ræddi um dómara (af mikilli þekkingu).


mbl.is Olígarkar á barmi gjaldþrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð Davíðs 17/11 2007.

Grein í DV 17. nóvember 2007 :

"Bjargbrúnarkenning seðlabankastjóra slegin af

None

Laugardagur 17. nóvember 2007 kl 14:13

Höfundur: (johannh@dv.is)

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur. Nánar er rætt við Guðmund um þetta í nýju viðtali hér á vefsíðu dv.is.  "

   Hér vantaði ekki hrokann, lítilsvirðinguna og háðið.

  Það má segja að mjög erfitt hefur verið á þessum tíma fyrir ráðandi öfl að nota of sterk orð um stöðu bankanna (ef hún hefur verið talin mjög slæm að þeirra áliti), þar sem slíkar yfirlýsingar hefðu, ef þeim hefði verið trúað kallað á BANKAÁHLAUP.  Svo það má segja að slík gagnrýni hefði getað haft afar slæmar afleiðingar og þá er næsta víst hverjum hefði verið kennt um.  En það breytir þó ekki því að stjórnvöld og eftirlitsaðilar hefðu átt að bregðast við þessum viðvörunum.


Trúverðugur.

  Horfði á Davíð í Kastljósinu og fannst hann trúverðugur.  Veit þó að ég á ekki marga skoðanabræður, en það skiptir þó litlu.

  Man vel eftir uppástungu hans um þjóðstjórn og spyr afhverju menn urðu vitlausir vegna þessarar tillögu Davíðs ?  Hefur ekki einmitt komið í ljós að þetta var kórrétt hjá honum.

  Hljóta ekki menn einnig að taka undir með honum að loforðið um að hverjum steini yrði velt við hefur ekki verið efnt svo nokkurt vit sé í !

  Og hvað með einkahlutafélögin og vildarlánin til þeirra ?  Hvar eru mál þeirra stödd og ég trúi bara ekki að riftunarfrestir verði látnir líða í karp um keisarans skegg.  Hefur enginn áhuga á neinu raunverulegu, bara að koma Davíð burt, það er það eina sem kemst að.

  Þá er ég sammála honum um að stjórnleysi og agaleysið sé algjört.  Hvað er þessi ríkisstjórn t.d. að gera ?  Jú, koma honum frá og svo hvað ?  Lækka skuldir um 20% - er ekki allt í lagi með þingmennina ?  Og er verið að telja kjark í allt það fólk sem er að missa allt sitt ?

  Ég hef sagt það áður að við hefðum betur átt að bregðast hart við  strax í upphafi eins og bretar gerðu með hryðjuverkalögunum, skella öllu í lás svo menn hlypu ekki út með góssið.  En við gerðum þveröfugt, réðum þessa sömu menn til að stjórna bönkunum áfram og réðum svo flokksgæðinga í allar skilanefndir á sjálftökulaunum.  Vitleysan tekur engan enda. 

  Í viðtalinu kom fram að víða hafa reynst brotalamir í kerfinu og það er alltaf að koma betur og betur í ljós að viðvörunarorð ýmissa fyrir hrun komust greinilega ekki að þar sem menn voru gjörsamlega hættir að heyra.

  Langstærsti vandinn var fólginn í þöggun fjölmiðla, sem gjörsamlega brugðust í aðdragandanum.  Ástæða þess hefur oft verið nefnd samþjöppun eignarhalds fjölmiðla, einmitt það sem fjölmiðlalögin áttu að koma í veg fyrir.

  Og hver og hverjir komu í veg fyrir að þau lög komust í gegn ?  Já, einmitt, og þeir sitja enn og eru enn að.

  Þetta er ekki gæfulegt fyrir þessa blessaða þjóð.

http://blogg.visir.is/blommi/files/2008/10/david-oddson.jpg  Davíð tekur miðið.


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Kristinn að lesa síðuna mína ?

  Það er gott að einhverjir séu að lesa síðuna hjá manni, hér er bloggfærsla mín frá 15. janúar sl:

   Fannst það mjög einkennilegt síðasta sumar, þegar viðskiptaráðherra (sem taldi okkur eiga nóg af peningum), í kjölfar jarðskjálftanna, lækkaði sjálfsábyrgð úr 80 þúsundum í 20 þúsund, svo allir brotnir blómavasar urðu þá sjálfkrafa á ábyrgð þjóðarinnar.

  Er ekki rétt að menn fari að átta sig á því sem skiptir máli, þ.e. að aðstoða þá sem aðstoð þurfa, en hætta þessum leikaraskap með skattfé.  Auðvitað þarf að aðstoða þá sem missa það sem þeim er verðmætast, en ekki eitthvað sem engu skiptir.

  Og hvernig er staðan núna, 7 mánuðum síðar ?

  = Þjóðin hefur komist að því að engir peningar eru til og við getum varla sinnt þeim sjúku og öldruðu !


mbl.is Ráðherrum ekki treystandi fyrir löggjafarvaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfaldasta hagfræði í heimi !

  Þetta er algjörlega ofvaxið skilningi venjulegs fólks.  Hvenær í ósköpunum ætlar þessi þjóð að vakna upp af draumsvefninum ?  Þetta hús er táknmynd gróðærisins og þess tíma þegar menn misstu algerlega áttir í hagstjórninni í okkar blessaða landi.

  Það er alltaf þannig að ef þú ert blankur og eygir enga von um aura í bráð, þá hættir þú byggingu bílskúrsins um sinn, á meðan það ástand varir.  Það má alltaf klára hann seinna.  Hver kannast ekki við eitthvað slíkt frá því fyrir góðæri ?

  Ég hélt að þetta væri einfaldasta hagfræði í heimi.  Og árið 2010 verður verra ef eitthvað er.  Á að spara meira í heilbrigðiskerfinu ?

  Hvar eru hinar hagsýnu húsmæður sem áttu að vera í vinstra liðinu ?

http://farm4.static.flickr.com/3008/2586430593_93254f55d0.jpg?v=0 Minnisvarði þess tíma þegar ráðamenn töpuðu vitglórunni !


mbl.is Vill ljúka smíði Tónlistarhúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sést utan úr geimnum !

  Það er svo merkilegt nú eftir bankahrunið, að vanhæfi margra stjórnmálamanna, þjóðarleiðtoga, bankafursta og vina þeirra er svo augljóst að það sést utan úr geimnum.

  Furðulegra er þó, að þetta virðist klíkunni, sem næst þeim stendur, algjörlega hulið og morgunljóst af framgöngu þessara einstaklinga, að þau trúa því í fyllstu einlægni að þau muni komast til hæstu metorða innan síns hóps.

  Það getur ekki verið neinu um að kenna nema því að þau standa í þéttum og stórum hópi jábræðra og -systra, sem hvísla í eyru þeirra að það sé bara allt í himnalagi.

  Þetta er vitaskuld bara sorglegt miðað við atburði síðustu vikna og er til vitnis um þá þöggun, sem viðvarandi var hér í aðdraganda hrunsins.

  Margir í framsóknarflokknum virðast alltént hafa áttað sig á því að gera  varð róttækar breytingar, enda lá þar reyndar líf flokksins við, hvorki meira né minna, en stóra spurningin er hvað gerist í hinum flokkunum, þá sérstaklega þeim stærstu.

  Þöggunin á vissulega við um Sjálfstæðisflokkinn og  þar virðist hún enn lifa gróskumiklu lífi.  Það er einkennilegt að enginn skyldi ljóstra upp við þetta fólk að hann/hún hafa sungið sitt síðasta í stjórnmálum, a.m.k. um sinn.

  Ég held það sé lífsnauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að opna nú augun  og horfa rækilega í kringum sig og sjá að veröldin í íslenskum stjórnmálum er ekki sú sem hún var fyrir 6 mánuðum.

http://johnfenzel.typepad.com/john_fenzels_blog/images/2007/03/14/the3monkeys.jpg Þessir eru góðir félagar.


mbl.is Atlaga felldi íslenska kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgöngur versna bara.

  Reyndar falla umræður um samgöngur til Eyja næstum alltaf í grýttan jarðveg, því þær eru yfirleitt afgreiddar sem væl í Eyjamönnum, en ég get þó ekki orða bundist og hætti mér út á þennan hála ís hér og nú.
  Ef vera kynni að einhverjir eigi erfitt með að setja sig í spor fólksins hér, þá set ég þetta upp í nokkrar algengar spurningar og leitast við að svara þeim sjálfur.
1.  Hver er staðan í samgöngumálum til Vestmannaeyja einmitt núna ?
2.  Hvernig er ferðum skipsins háttað og er það ekki bara ágætt ?
3.  Er eitthvað vandamál að ferðast með skipinu ?
4.  En er ferðin ekki ódýr, er hún ekki svo mikið niðurgreidd ?
5.  Getið þið ekki bara tekið flug ?  Getið þið ekki valið um Reykjavík og Bakka ?
6.  Hvern djö ... eruð þið þá að búa þarna og ef þið endilega viljið hangsa þarna getið þið þá ekki bara verið heima hjá ykkur ?
 Herjólfur á siglingu.
1. Staðan í samgöngumálum til Eyja hefur sjaldan eða aldrei verið hörmulegri.  Sérstaða Eyjanna liggur í því að vegasamgöngur eru ekki til þessa næststærsta þéttbýliskjarna á landsbyggðinni (utan stór-höfuðborgarsvæðisins) (einungis Akureyri er stærri).
2.  Herjólfur siglir tvisvar á dag milli lands og Eyja, það er tæpa 3 tíma hvora leið. Að undanförnu hafa ferðir verið felldar niður hægri vinstri, þar sem skipið hefur verið að bila æ oftar, vélarnar (sem eru 2) eru að bila og stundum báðar í einu og skipið er jafnvel að stöðvast úti á rúmsjó.  Stundum eru ferðir felldar niður vegna veðurs og hefur það aukist verulega síðustu misseri.
  Núverandi skip kom hingað 1992 og hefur því siglt í 16 ár.  Síðasti Herjólfur þjónaði í 15 ár (1977-1992), en gekk þó varla nema helmingin af því sem þetta skip hefur verið látið ganga.  Í haust bilaði veltiuggi svo skipið veltur víst eins og korktappi og ekki fyrir sjóveika að ferðast með því.  Varahlutir eru (að sögn) væntanlegir eftir fleiri mánuði svo ekki er von á bót á þessu í bráð. (hvernig verður ferðamannabransinn í sumar ef ekki verður bætt úr fyrir þann tíma ?).
3.  Sjóveikir.  Það er ekki fyrir alla að ferðast sjóleiðis, þar sem hluti fólks þjáist af svokallaðri sjóveiki sem ku vera ansi hvimleiður lasleiki og svo erfið er þessi árátta að menn taka út fyrir að sigla með skipinu, ef sjór er hreinlega ekki all-sléttur.  Það er því alltaf spurt um sjólag áður en ferð er ákveðin.  Nú er þessi ferð til/og frá Eyjum sjóleiðina ennþá erfiðari, þar sem skipið veltur meir en áður og bilanahættan pirrar vitaskuld allt skynsamt fólk.  Þess vegna eru margir Eyjamenn ekki á ferðinni upp á land nema veðurútlit sé gott yfir ferðatímann.
  Ekki pláss fyrir þig.  Annað vandamál er að stundum (sérstaklega á föstu- og sunnudögum) er upppantað í skipið, ef ekki fyrir bifreiðar þá klefar fyrir þessa sem ekki eru sjóhraustir.  Svo fólk þarf að áætla ferðir með löngum fyrirvara, sem ekki er gott þar sem veðurspár ná ekki svo langt.  Svo það er ekki auðvelt verk að skipuleggja bæjarferðir.
  Þörfin.  Hér þarf líka að taka með í reikninginn að margir sjúklingar þurfa að leita læknis, tannlæknis eða eitthvað það erindi sem fólk þarf yfirleitt að rækja í höfuðstað landsins.  Svo ekki sé minnst á að margir krakkar eru í íþróttum og þurfa því að keppa við jafnaldra uppi á landi, a.m.k. ef þau vilja ná árangri eins og allir stefna að.  Síðan á fólk eins og gengur ættingja í bænum, e.t.v. aldraða foreldra sem það vill vitja endrum og eins og með svona samgöngum, sem ég er hér að reyna að lýsa, er þetta alls ekki svo einfalt mál að komast milli staða á landinu okkar.
4.  Kostnaður. Ef tekin er hin hefðbundna vísitölufjölskylda, 4ra manna fjölskylda þá kostar það hana 25 einingar eða ca. 10.000 krónur að fara eina bæjarferð með skipinu með afslætti (án bensíns), ef reiknað er með klefa og bíl báðar leiðir.  Þetta er þó nokkur upphæð.  Ef þú þarft að fara oftar er eins gott að þú hafir dágóð laun.
 Það er stundum sagt að Herjólfur sé þjóðvegur Vestmannaeyinga.  Það eru aðeins tveir þjóðvegir á Íslandi sem rukkað er inn á, Hvalfjarðargöng og Herjólfur.  Í sumar fór ég Hvalfjarðargöngin og ætli miðinn hafi ekki kostað mig 500 krónur, ef það var svo mikið.  Ef ég hefði orðið fúll vegna þessa kostnaðar gat ég bara ekið Hvalfjörðinn.
5.  Flug hingað er háð veðrum eins og annars staðar og ferðir falla oft niður.  Þetta búa þó allir landsmenn við og ekkert um það að segja.  Það er fyrst og fremst kostnaðurinn við flug sem veldur því að fólk vill fara sinna ferða á ódýrari hátt.  Þetta vita allir landsmenn, þú ekur frekar með fjölskylduna út á land, því hitt er miklu dýrarar.  Flug er lúxus.  Gallinn við Eyjarnar er að hingað liggur engin vegur.
Flug á Bakka hefur bjargað miklu hingað til, þó þú takir vissulega ekki bílinn með þér.  Nú er þó svo komið að hætt er við að fljúga upp á Bakka í vetur, en það á að sjá til með vorinu svo þetta er engin valkostur lengur.
6.  Þessi spurning kemur alltaf fyrir rest.
   Ég tel óþarft að benda á mikilvægi byggðarinnar hér fyrir þjóðina, það liggur í augum uppi og þeir sem eru í vafa geta kynnt sér mikilvægi sjávarútvegs annars staðar.
  Ég vil þó trúa því að allir landsmenn eigi að hafa kost á að leita sér þjónustu og njóta menningar í höfuðstaðnum og komast þangað á verði sem þeir hafa sæmileg ráð á miðað við búsetu sína.  Ferðatíðni og aðbúnaður ferðalanga á að vera þannig að allir geta við unað.
  - Þessu er því miður ekki lengur þannig varið hér í Eyjum.  Ég hef áhyggjur af því að þetta komi illa niður á samfélaginu hér í minnkandi lífsgæðum fólksins.
  - Og enginn virðist hafa áhyggjur af þessu alvarlega ástandi.  Frétti þó af því að Grétar Mar hefði verið að ræða þetta á Alþingi um daginn, en enginn sá ástæðu til að taka til máls, hvorki Vestmannaeyjaþingmennirnir eða aðrir þingmenn úr kjördæminu, sem koma þó hingað á atkvæðaveiðar endrum og eins.  Kannski vegna þess hver hóf máls á þessu, en skiptir það máli hver bendir á það sem betur má fara ?
  Spurt er hvort þetta séu góðar eða slæmar samgöngur ?
  SVAR : Nei, þetta eru engar samgöngur !

mbl.is Ferð Herjólfs felld niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sitjum uppi með hann !

  Herjólfur hefur ítrekað verið að bila síðustu mánuðina og spurning hversu lengi hann dugir án róttækra endurbóta.
Herjólfur í veltu.
  Svo virðist sem við munum sitja uppi með blessað skipið enn um sinn, því nú er skollinn á kreppa vegna veisluhalda nokkurra bankapeyja sem tókst að leggja þjóðarskútuna á hliðina undir lófataki og húrrahrópum þeirra sem stjórna þessu landi.
  Herjólfur kom til þjónustu 1992, en þá hafði hinn fyrri siglt frá 1977 eða í 15 ár og þótti hafa dugað vel.  Nú er þessi búinn að ganga í 16 ár, en þá er ekki öll sagan sögð því hann er á ferðinni næstum 15 tíma á dag.  Notkunartími þessa skips er því miklu meiri en fyrra skips.
  En ég hef bent á það áður að nægjusemi Eyjamanna er einstök, en hvort hún er til eftirbreytni veit ég hreinlega ekki, því svo virðist sem það sé ekki leiðin til þess að fá réttláta úrlausn í samgöngumálum.  Það hafa Eyjamenn fengið sannarlega að reyna undanfarin ár.

mbl.is Vél Herjólfs bilaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband