Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kristófer flottur.

  Hér er mynd af Kristófer í japönskum búningi sem Hlín lánaði honum, en hún var einmitt að koma frá Japan eftir áramótin.  Myndin er tekin af 7öfn sjá www.heimaey.is

   Hann er flottur strákurinn ! 


Bekkjarfélagarnir

  Í vetur hef ég verið í stjórnunarnámi Lögregluskólans og Endurmenntunar Háskóla Íslands.  Námið fer fram í viku lotum og verkefnaskilum þess á milli. Í hópnum okkar eru 28 karlar, flestir lögreglumenn sem koma víða að af landinu.  Þetta hefur verið afar gaman og við höfum fengið frábæra kennara, sem flestir ef ekki allir eru í fyrsta flokki.

  Bekkjarfélagarnir eru skondnir náungar, eins og gefur að skilja, en smá saman hefur mér hreinlega farið að líka ágætlega við þá.  Ég veit ekki hvort ég á að þora að segja mikið frá þeim, því ég veit þeir munu örugglega lesa þetta og munu ná sér niður á mér í skólanum ef ég segi frá öllu því sem ég hef séð til þeirra þarna - Svo ég læt það bíða betri tíma.

  Yfirkennarinn hefur verið að spá í að halda foreldrafund ef menn hætta ekki að sóða allt út með neftóbaki, skvaldra í tímum og koma of seint úr morgunkaffinu.  Ég veit ekki hvort hann áttar sig á því að foreldrar flestra eru komnir af léttasta skeiði og ættu í stökustu erfiðleikum með að komast í viðtal heilsu sinnar vegna.  En ég segi fleiri sögur úr skólanum síðar.

  Svipmyndir úr skólanum.  


Land Idi Amins

  Þið munið kannski ekki eftir honum, en Idi Amin var einn þekktasti einræðisherra heimsins hér í den og honum var jafnvel gefið að sök að vera mannæta og snæða óvini sína (eða vini).  Jæja ekki meira um það, en hann er reyndar kominn sjálfur undir græna ...

 Skopmynd af Amin, í anda stjórnar hans ...

 Ekki merkilegt leiði fyrir fyrrverandi æðstráðanda !


mbl.is Utanríkisráðherra fundaði með ráðamönnum í Úganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maraþonskák í Eyjum

  Á morgun, föstudag munu krakkarnir í Taflfélagi Vestmannaeyja reyna að tefla í heilan sólarhring, allt til að efla félagið sitt.  Forráðamenn félagsins vilja hvetja áhugasama að líta við og taka eina lauflétta við krakkana.  Þarna verða bæði strákar og stelpur, sjá skrif á bloggsíðu : http://eyglohardar.blog.is/
Og fréttir um maraþonskákina og skemmtilega og nýstárlega netkeppni Eyjakrakka við skólakrakka í Namibíu n.k. laugardag á skak.is : http://www.ruv.is/skak/
 Skák er ekkert síður fyrir stúlkur en drengi.
 Bara alls ekki.

Lögreglumenn á hestum

  Það hefur tíðkast víða að lögreglumenn noti ýmis farartæki við störf sín, önnur en bifreiðar og bifhjól eins hér tíðkast mest.  Hér má sjá danska lögreglumenn á hestum.  Hvernig líst ykkur íslenska lögreglumenn á hestum við löggæslustörf ?Danskir lögreglumenn á hestum


Sjóveikir Bankamenn

 Ég fór með Herjólfi í fyrrakvöld til Eyja eftir nokkurra daga dvöl í bænum.  Farið var að hvessa og smá veltingur á leiðinni.
  Um borð í skipinu hittir maður oftast marga og oft gaman að taka spjallið.
  Þegar við vorum nokkrir þarna að ræða málin, kemur einn skipverji á Herjólfi með æludall í hendinni, gengur til okkar og segir að það sé sjóveikur bankamaður afturí.
  Við áttum okkur ekki á hvað hann var að fara fyrr en hann hristir æluboxið og við sjáum að það er hálffullt af smámynt! 

Fimmta valdið

  Stundum er talað um að í lýðræðisþjóðfélagi sé valdinu skipt niður á þrjá valdhafa, löggjafar- framkvæmda- og dómsvald.
  Á umliðnum áratugum hefur mönnum verið tíðrætt um vald fjölmiðlanna, þar sé komið fjórða valdið.
  Ég get ekki merkt annað en nú hafi hið fimmta bæst við, þ.e. bloggheimar.
  Það sem er athyglisverðast við þennan nýja heim er að allir geta látið í sér heyra, svona svipað og vera á fundi þar sem allir geta fengið orðið (eina skilyrðið er raunar að hafa aðgang að tölvu og netsambandi).
  En það munu sumir ná augum fjöldans umfram aðra og spurningin er hver verða áhrifin af þessari nýju byltingu.
  Á 18 öld þurfti blóðuga byltingu og breytingarnar tóku áratugi að breiðast um heiminn, þær fóru hægt yfir og oftast var auðvelt að stöðva þær af valdhöfum, þeir þurftu einfaldlega að stöðva umtalið á götunum og það voru fjölmörg ráð við því.
  Síðar þustu menn í kröfugöngur og rödd þeirra heyrðist ekki nema meðal þeirra sem voru á staðnum eða í besta falli ef fjölmiðlar sýndu málefninu áhuga, sem var auðvitað ekki alltaf.  Fólk gat líka alltaf skrifað greinar í blöð, en það var undir höfuð lagt hvort þú fékkst birtingu á þeim og sérstaklega ef þar var eitthvað virkilega bitastætt.
  Bloggheimar eru hið nýja tjáningarform, það er bæði opnara, aðgengilegra og fljótvirkara en öll hin og jafnvel svo mörgum þyki nóg um. 
  Ég velti fyrir mér til hvers þetta mun leiða í náinni framtíð.  Nú er svo komið að enginn getur fyrirfram stjórnað því hvaða skoðun fólk á eða ætti að hafa, fimmta valdið er komið af stað og ekki enn búið að finna leið til að hemja það.
  Eða má snúa þessu við og segja að nú verði auðveldara að útbreiða skoðanir sem kvikna meðal fólksins, ef bloggarinn á upp á pallborðið.
  Pælið í þessu.

Þjóðvegurinn Herjólfur

  Mikil mótmæli voru við Herjólf áðan þar sem gjaldskráin var að hækka um meira en 10%.  Um 500 manns mættu niður við höfn og klukkan 4 heyrðist mikið bílaflaut og ég frétti að Herjólfur hafi kvatt með þokulúðrum sínum.
  Ég held að fólk uppi á landi hafi engan áhuga á þessu máli, þetta er þeim mjög fjarlægt hvort það kostar 2 eða 3000 krónur með Herjólfi fyrir manninn.
  Staðreyndin er auðvitað sú að ef þetta á að heita okkar þjóðvegur, þá á hann að vera gjaldfrjáls fyrir bifreiðar, því þú kemst ekki öðruvísi þarna á milli.  Eða er það ekki ?  Þannig virka þjóðvegir og rökin fyrir því að gjaldtaka Hvalfjarðargöngin á sínum tíma var að þeir sem ekki vildu borga ættu þá kost á að aka Hvalfjörðinn.
  Í Akraborginni í gamla daga borgaði maður fyrir bílinn, en ekki farþegana.  Í Herjólfi er greitt fyrir hvern farþega sem ferðast með bílnum og svo líka fyrir bílinn.  Einn mánuðinn keypti ég 3 kort í Herjólf alls 43 þúsund krónur og er ég þó bara með vísitölufjölskyldu og ekki mikið á ferðinni.
  Ég kemst Hvalfjarðargöngin næstum 200 sinnum (5 sinnum á dag alla virka daga) fyrir þá upphæð á mínum fjölskyldubíl og það jafnvel með hann fullan af fólki.
  Og svo vælir fólk sem þarf að borga í þessi göng !
  Svo eru menn hissa á að það fækki fólki í Eyjum.

Nýjar Íslendingasögur.

  Nú hagnast Jóakimar Íslands sem aldrei fyrr og þeir fara með aurana út til að kaupa fleiri bréf til að reyna að græða meira.  Þetta er gott og eykur hagvöxt og menn geta þá keypt Elton John og Bítlana og alla þessa frægu hingað til Íslands til að syngja og spila í afmælum barna sinna.
  Þetta heitir á góðu máli útrás.
  Hinar nýju Íslendingasögur verða skrifaðar þegar þessu linnir.
  Almenningur fylgist með opineygður og veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Flestir alvöru menn átta sig á því hve slappir þeir eru að vera ekki með í útrásinni.
  Hvað næst ?  Ég bíð spenntur.
  Kannski þeir kaupi NASA, nei það er lummó, frekar Kreml eða Torg hins himneska friðar - Eitthvað nógu nýstárlegt til að slá hinum við.

12 stykki Eyjagöng

  Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna var 163,7 milljarðar á síðasta ári.  Í mínum huga eru það næstum 12 göng til Eyja ef miðað er við lægstu útreikninga, en kannski 4-5 göng ef miðað er við útreikninga í dýrari kantinum.  Þetta er ótrúlegir peningar.  Svo eru menn að klóra sér í hausnum um hvort tvöfalda eigi Suðurlandsveg, þar sem banaslys verða því miður alltaf oft.  Þetta er fáránlegt.

  Þessa peninga á þó ríkið ekki, heldur bankarnir, en eitthvað ætti þó að koma inn í skatttekjur.  Samgöngumálin eru á rollugötustiginu, og skýrasta dæmið er það þegar ríkasta þjóð í heimi þarf að horfa upp á slysaöldu á vegi sem ætti að vera búið að tvöfalda fyrir áratug.  Nei, þá er gerður 2+1 vegur þess í stað.  Hvað ætli sé langt þangað til hann verður rifinn upp ?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband