Færsluflokkur: Dægurmál

Heimasíða NM í skólaskák.

  Ég hef alveg gleymt að benda ykkur á heimasíðu Norðurlandamótsins sem er www.sk33.se
 Beygja hérna.  Mótið fer fram í Örsundsbro í Svíþjóð sem er 1800 manna þorp skammt frá Uppsala.

Ferðalagið hefst á morgun

  Áðan var fundur um ferð skáksveitarinnar á Norðurlandamótið um helgina sem haldið verður í Svíþjóð n.k. föstudag, laugardag og sunnudag.
  Við förum með seinni ferð Herjólfs á morgun og gistum í gistiheimilinu Alex í Keflavík fyrir flugið.
  Flugið er síðan á fimmtudagsmorgun kl. 7:50 og millilendum við og skiptum um vél í Ósló.  Þegar til Stokkhólms kemur förum við með rútu til Örsundsbro og síðan verður líklega náð í okkur og farið til Björkdala sem er staðurinn þar sem við gistum.
  Mótið hefst á Sænskum tíma á föstudag kl. 17 og ætla ég að blogga á meðan á mótinu stendur, eða það er a.m.k. ætlunin.
  Vonandi fylgist þið með gengi íslensku-Vestmanneysku sveitarinnar á blogginu og annar staðar.
  Endilega setjið inn athugasemdir svo ég viti nú að einhver sé að fylgjast með, annars mun ég örugglega gefast upp.
  Og þá hefst skákkennslan.  Hvað á hvítur að gera ?

Pysjutíminn kominn á fullan skrið

  Þrátt fyrir slæmar spár um lélegt árferði Lundans, þá virðist ekki hörgull á pysjum í bænum þessa dagana.  Skyndilega um síðustu helgi byrjuðu þær innrás sína í bæinn og nú á hverju kvöldi eru krakkar um allar götur að elta þessi skinn.
  Maður fréttir af því að sjórinn sé fullur af sandsíli þannig að miðað við fréttir frá því fyrr í sumar virðist nú nægt æti fyrir Lundann.
  Pysjurnar eru vel haldnar, flestar 240-270 grömm og metið hjá fjölskyldunni er hvorki meira né minna en 352 grömm.  Sú pysja ólst líklega upp í Klifinu eða í Heimakletti, því hún fannst í kvöld úti á Eiði.  Síðustu pysju kvöldsins var bjargað þegar við vorum á heimleið, þar sem hún var á harðaspretti á Helgafellsbrautinni undan ketti sem hljóp á eftir henni.  Það er sannarlega góðir tímar hjá köttunum í Eyjum þessa dagana.

Fyrsta pysjan í hús

  Jæja, þá er fyrsta pysjan komin í hús í haust og hún var bara nokkuð brött, 262 grömm og virtist vera vel þroskuð.
  Í fyrra var lélegasta pysjuár frá upphafi, en samt fundum við þá 26 stykki, en þær voru flestar tæplega 200 grömm, flestar aldúnaðar og fóru því margar í fitun áður en þeim var sleppt.  Við gáfum þeim niðurskorna loðnu og makríl í 2-3 daga þar til þær náðu 250 grömmunum og þá var þeim sleppt.
  Í fyrra bar það við að við fundum töluvert af skrofu (6 stykki), en það hefur ekki gerst síðan 2001 þegar við fundum tvær.
  Þetta lítur því betur út núna en í fyrra, þegar pysjutíminn var í hámarki um miðjan september, en verður trúlega aðeins fyrr núna.  Aðalatriðið er þó að pysjurnar núna eru mun brattari.
  Pysjan er núna í sinni einkasvítu.

Helgi Ólafsson þjálfar skáklið Grunnskólans í Eyjum

  Miðvikudaginn 29. ágúst kom Helgi Ólafsson stórmeistari til að þjálfa Íslandsmeistara barnaskólans og er það hugsaður sem undirbúningur undir Norðurlandamótið sem fram fer um aðra helgi í Svíþjóð.  Það er stórkostlegt að strákarnir fái leiðsögn Helga, en hann fer með þeim á mótið sem þjálfari.  Vonandi gengur þetta vel, en auðvitað er þetta í fyrsta sinn sem skáklið frá Vestmannaeyjum keppir á Norðurlandamóti.
  Síðustu helgi 24. - 26. ágúst var Vinnslustöðvarmótið haldið hér og þar fengu strákarnir að spreyta sig svona til þess að hita sig aðeins upp fyrir mótið.
  Þar áður kom svo Sævar Bjarnason, alþjóðlegur meistari og tók strákana í nokkrar kennslustundir eftir sumarfrí.
  Þannig höfum við leitast við að koma þeim í gang fyrir Norðurlandamótið.
 Helgi á Sparisjóðsmótinu í Eyjum.

Skákuppbygging í Eyjum

  Undanfarin ár hefur Taflfélag Vestmannaeyja unnið markvisst að því að byggja upp öflugt skáklíf í Vestmannaeyjum.  Í fullorðinsflokki var stefnan snemma sett á að berjast um efstu sæti á Íslandsmótinu og hefur það gengið eftir og síðustu þrjú ár hefur sveit félagsins verið í verðlaunasæti á þessu 3-400 manna móti.

  Fyrir nokkrum árum settust forráðamenn félagsins niður og settu sér markmið fyrir krakkahóp félagsins.  Markmiðið var að krakkar í TV skipuðu sér í hóp bestu skákkrakka á landinu.  Þessu markmiði yrði náð með nokkrum aðgerðum, í fyrsta lagi með reglulegri kennslu og mótahaldi, í öðru lagi með því að fjölga mjög í byrjendahópi félagsins, í þriðja lagi með því að skapa skemmtilegt andrúmsloft meðal krakkanna, í fjóra lagi með því að fara reglulega upp á land og tefla við þá bestu og í fimmta lagi með því að leyfa þeim krökkum sem lengst væru komin að tefla við fullorðna í meira mæli en þá hafði þekkst.

  Nú, nokkrum árum síðar er árangur að koma í ljós; Árið 2005 eignaðist TV sinn fyrsta Íslandsmeistara um langt árabil, í flokki undir 10 ára, Nú í janúar 2007 eignuðumst við svo aftur Íslandsmeistara í þessum sama flokki barna 10 ára og yngri auk þess sem við áttum líka þann sem lenti í 3 sæti og loks nú um síðustu helgi varð sveit frá Vestmannaeyjum Íslandsmeistari í flokki skólasveita 13 ára og yngri auk þess sem B-sveitin Eyjakrakka varð efst í flokki B-sveita, sem sýnir best breiddina.

  Í Taflfélagi Vestmannaeyja stunda nú um 40 krakkar skák og þar af eru um 15 sem tefla í framhaldsflokkum félagsins.  Æfingar eru 3-4 sinnum í viku fyrir þau sem lengst eru komin en 2 svar í viku fyrir byrjendur.

  Þessi árangur verður á sama tíma og mjög öflugt skákstarf er unnið í fjölmörgum félögum og skólum á höfuðborgarsvæðinu og má þar nefna Rimaskóla, Salaskóla og Laugarlækjarskóla sem framleiða skákkrakka á löngum færiböndum og halda úti gríðarlega miklu starfi á þessu sviði.

  Þá er ég komin að því sem er tilefni þessarar greinar, nefnilega að ræða hvert framhaldið er.  Að mínu mati er nú komin tími til að leita út fyrir Eyjarnar að kennurum fyrir þá bestu í félaginu.  Hvað aðstöðumun varðar þá geta þessir krakkar ekki mætt á hverju kvöldi niður í Skákskóla, sem staðsettur er í Reykjavík, þau geta heldur ekki mætt á öll þau mót sem eru á dagskrá á höfuðborgarsvæðinu.  Þennan aðstöðumun þarf að vinna upp svo krakkar í Eyjum geti átt sömu möguleika á framförum og þau sem stunda skák á höfuðborgarsvæðinu (þetta á að sjálfsögðu líka við um krakka sem skara fram úr víðar á landsbyggðinni).

  Á fundi í Skáksambandinu um daginn ræddi ég þetta mál í stjórninni.  Fullur vilji er til að leita leiða til að mæta þeirri brýnu þörf sem þarna er að skapast og þar verður Skákskóli Íslands einnig að koma að með fullum þunga.  Þá væntir Taflfélagið þess að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum átti sig á þeim krossgötum sem félagið stendur á hvað varðar afreksstefnu í barnastarfinu hér.

  Í Vestmannaeyjum er búið að leggja traustan grunn að öflugu skáklífi og nú er að huga að framhaldinu.  Það er verk að vinna.


Ian er stórkostlegur

  Það er gaman að Jethro Tull og Ian Anderson skulu vera að koma í september í haust og nú ætla ég mér ekki að missa af hljómsveitinni eins og 1992, þegar hún kom síðast.

  Ian er stórkostlegur tónlistarmaður og bestur á þverflautuna. Hér eru nokkrar myndir af kappanum:

     


Mikil bjartsýni við komu Vestmannaeyjar VE 444

  Ég fór auðvitað að skoða nýja skipið en það sem vakti mesta athygli mína var hin mikla jákvæðni og bjartsýni sem einkenndi samkomu þeirra sem þarna lögðu leið sína.  Magnús Kristinsson útgerðarmaður með meiru var þarna auðvitað og brosti út að eyrum og vel var veitt af kruðeríi.  Menn brostu í allar áttir og svona vil ég sjá Eyjarnar áfram.  Bjartsýni og jákvæðni.
 Útgerðarmaðurinn brosti út að eyrum, enda ástæða til.
Mynd 423483  Floti MK á siglingu inn til hafnar í Eyjum !

mbl.is Fjölgar í flota Eyjamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband